152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:10]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að tala aðeins um stefnu sem var unnin og heitir Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Stefnan var unnin í miklu samráði við fagfólk og þingsályktunartillagan sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að leggja fram er unnin upp úr henni. Það eru þó ýmsir hlutir og aðgerðir sem ég sakna úr stefnunni sem eru, að mér sýnist, ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þar er sumt, enda var þetta mjög metnaðarfull stefna, en annað er ekki.

Mig langar að byrja á að nefna aðgerð sem talað er um. Áður en stefnan fór í gegnum samráðsgátt var talað um, með leyfi forseta: „[…] að tryggja kjör heilbrigðisstarfsmanna til þess að tryggja samfellu í þjónustu og að atgervisflótti verði ekki í fagstéttum sem geri þjónustuna brothætta.“

Einnig er hér önnur sem mér finnst mikilvægt að komi fram þar sem hún var í þessari framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem var inni í samráðsgátt. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Hanna og byggja fyrir 2030 nýtt húsnæði fyrir geðþjónustuna sem svarar kalli tímans um aðbúnað einstaklinga í meðferð og aðstandendur, húsnæði þar sem starfsfólk getur sinnt öllum þáttum þjónustunnar betur en hægt er í dag með tilliti til greiningar, meðferðar, öryggis og sóttvarna og þar sem innlagðir sjúklingar hafa einstaklingsherbergi og greiðan aðgang að útisvæði.“

Fyrir mér hljómar þetta mjög mikilvægt, mjög mikilvæg aðgerð sem er grundvöllurinn að því að geðdeildir Landspítalans virki eða muni virka. Það er nefnilega svo að það er mikið ákall um betri aðbúnað fyrir fólk sem lendir í því að þurfa að sækja sér þjónustu á geðdeildir spítala. Það er mikið ákall um breytingar. Ekki þarf annað en að fara bara sjálfur inn á, hvort sem það eru deildir á Landspítala eða Kleppsspítala eða hvar sem það er, aðbúnaðurinn er bara ekki í lagi. Hann er fyrir neðan allar hellur. Hvernig á fólki að líða vel og ná heilsu á ný þegar umhverfið er eins og það er akkúrat núna á spítalanum? Það er ekkert skrýtið að fólk vilji helst ekki leggjast inn. Umhverfið er bara þannig, það býður mann ekki velkominn, enda virðist ekki neitt hafa verið gert þarna í ég veit ekki hve mörg ár. Auðvitað er starfsfólkið að gera sitt besta í ómögulegri stöðu, með ekkert fjármagn eða alla vega ekki nægilega mikið. Mygla, það er eitthvað sem maður heyrir oft. Það er mjög mikilvægt að nákvæmlega þetta atriði, umhverfi fyrir fólk sem er að kljást við geðraskanir, sé þannig að fólki líði vel. Grundvöllurinn að því að fólk sæki sér þjónustuna er, eins og var sagt hér, að fólk hafi t.d. greiðan aðgang að útisvæði. Ég held að hver maður sem hefur komið inn á geðdeildir Landspítala sé sammála mér um að þetta umhverfi er ekki í lagi. Það er mjög mikilvægt, tel ég, að þetta sé lagað sem fyrst.

Einnig er það önnur aðgerð sem ég sé í fljótu bragði ekki að sé nefnd hér, það gæti þó verið að það atriði sé hér einhvers staðar falið, en það er að stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra. Þetta er mjög mikilvægt. Oft eru foreldrar bestu meðferðaraðilarnir en foreldrar hafa oft og tíðum ekki þekkinguna. Þess vegna er mjög mikilvægt að við gleymum ekki þessari aðgerð.

Einnig er talað um að hefja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Það er hér í þessari framtíðarsýn. Það væri mjög gott ef það væri bara byrjað að fjármagna það og niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Annað er að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir. Þetta sé ég ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þetta er mjög mikilvægt og má ekki gleymast. Þetta er hluti af því að koma unga fólkinu okkar út á vinnumarkaðinn með stuðningi. Það var nú bara í dag sem ég ræddi við fólk sem hefur upplifað geðrænar áskoranir og þráir það heitast að komast út á vinnumarkaðinn en tækifærin eru ekki til staðar.

Svo kemur hér aftur: „Byggja nýtt húsnæði geðsviðs Landspítala og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar.“

Hér er aftur talað um þetta og verið er að ítreka það og mikilvægi þess að breytingar verði á þessu. Það er grundvallaratriði að þessi þriðja stigs geðþjónusta sem veitt er á Landspítala virki.

Þar sem tíminn er að verða búinn vil ég einnig tala um einn punkt sem var í þessari stefnu en það er að útiloka nauðung og þvingun við meðferð. Þetta stendur ekki í þessari tillögu hér. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga, það er talað um þetta í þessari framtíðarsýn fyrir geðheilbrigðismál til ársins 2030.