Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Varðandi þennan lið, óundirbúnar fyrirspurnir, þá er mjög gaman að giska á hver svör ráðherra verða. Mér tókst það ágætlega í dag varðandi þjóðaröryggisstefnuna þegar spurt var um NATO, þá var því svarað með þjóðaröryggisstefnunni. En mér finnst formið svolítið sérstakt og stíft. Ég hef fylgst með umræðum í norska þinginu, Stórþinginu, og í fyrirspurnatímanum þar eru þau með tvö púlt; annars vegar fyrir fyrirspyrjanda og hins vegar fyrir ráðherra. Það gengur bara mjög vel þar að hafa meira samræmi á milli, svona díalóg á milli, og ég velti fyrir mér hvort við ættum kannski að prófa svipað fyrirkomulag. En ég held að mannasiðirnir hér séu alveg jafn góðir og í Noregi. Það væri alla vega meira líf í þeim umræðum. og ég efast ekki um að hv. þingmenn gætu tekið þátt í þannig umræðu þar sem væru tvö púlt á svæðinu og það væri svarað og spurt á milli. Það yrðu miklu opnari og kröfuharðari fyrirspurnatímar, tel ég.