Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stórar samfélagslegar breytingar eiga sér ekki stað nema stjórnmálamenn hafi kjark til að veita slíkum málum og breytingum forystu. Það þarf kjark til að tala ekki bara um hlutina sem snerta fólk í daglegu lífi þess sem verkfræðilegt úrlausnarefni. Hvernig samfélagi við viljum búa í er hápólitískt mál. Sama hvað stjórnarliðar segja um lífskjör í landinu þá veit meiri hluti landsmanna að alvarleg staða er uppi á húsnæðismarkaði. Húsnæðismarkaðurinn á ekki að vera fjárfestingarmarkaður. Það er eitt að fjárfesta í eigin húsnæði til að eiga samastað og búa við húsnæðisöryggi, annað þegar íbúðarkaup eru orðin fjárfestingarkostur fyrir ávöxtun. Talað er um að framboðsskortur sé ástæðan fyrir að fólk sé fast á leigumarkaði, of lítið hafi verið byggt og verðið því hækkað mikið. En höfum eitt í huga, virðulegi forseti. Frá árinu 2005 hafa 35.000 nýjar íbúðir verið byggðar. Á sama tíma hefur íbúðum sem eru í eigu einstaklinga sem eiga tvær eða fleiri íbúðir og fyrirtækja fjölgað um 23.000. 67% af viðbótarframboði á húsnæðismarkaði hafa ratað til einstaklinga sem ætla ekki að búa sjálfir í íbúðinni sem og til fyrirtækja. Þessar íbúðir áttu að vera heimili fólks. Þarna býr vissulega fólk í dag á almennum leigumarkaði en með takmarkaða vernd sem gerir því erfitt fyrir að kalla þetta öruggt heimili. Víða í Evrópu er leigumarkaður sem tekur mið af eins konar þjóðarsátt um að húsnæði eigi ekki að vera uppspretta ávöxtunar heldur heimili fólks. Hér þarf slíka þjóðarsátt. Það þarf alvörubreytingar sem treysta stöðu leigjenda, viðkvæmra hópa og ungs fólks með beinum hætti og meiri hluta fólks í þessu landi með óbeinum hætti, með því að draga úr verðþrýstingi á markaðnum sem lekur yfir í allt verðlag. Nær væri að fólk með aukafjármagn fjárfesti í einhverju sem raunverulega skapar hér verðmæti og atvinnutækifæri og heimilin væru látin í friði.