Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þá er búið að prenta upp þessa breytingartillögu sem var með fyrir þessa umræðu frá mér og hv. þingmönnum Guðmundi Inga Kristinssyni, Guðbrandi Einarssyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni þar sem ekki allur 4. töluliður 1. mgr. 30. gr. laganna fellur brott heldur bara orðin „og skerðingarhlutfall“, eins og markmiðið var. En svona gerist þegar allt er á harðahlaupum. 2. gr. í þeirri breytingartillögu segir að í stað hlutfallstölunnar 11% komi 9%. Mig langar að fara örstutt yfir þetta aftur, eins og ég gerði síðast, nema í 30. gr. laganna er reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að setja reglugerðir um frítekjumörk og skerðingarhlutföll samkvæmt 17. gr.

Í 17. gr. var málsgrein sem segir:

„Ráðherra er jafnframt heimilt að breyta skerðingarhlutfalli skv. 1. mgr. með reglugerð.“

Þessari málsgrein hafnaði Alþingi, henni hafnaði meiri hluti velferðarnefndar. Þar voru Vinstri græn, Samfylkingin, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn með meirihlutaálit og Alþingi tók burtu þessa málsgrein með orðunum, með leyfi forseta:

„Nefndin telur óæskilegt að veita ráðherra slíka heimild án nánari afmörkunar og leggur því til að málsliðurinn falli brott.“

Eins og breytingartillagan var fyrst sett hérna áður en hún var prentuð upp hefði hún fellt brott bæði heimild ráðherra til að setja reglugerð um frítekjumörk og skerðingarhlutfall. Heimild ráðherra í núverandi lögum, sem voru samþykkt af Alþingi, með tilliti til frítekjumarka og reglugerðar hvað það varðar, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjárhæðir frítekjumarka skv. 1. mgr. koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæðum skv. 1. mgr. skal ráðherra breyta þeim með reglugerð.“

Það er því tiltölulega augljóst að þarna er um mjög takmarkaða heimild til reglugerðarbreytingar hvað varðar frítekjumarkið. Ráðherra skal uppfæra tölurnar með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála og einungis til hækkunar, ekki einu sinni lækkunar hvað það varðar. En einhverra hluta vegna þá vildi ráðherra upprunalega fá heimildina, að heimilt væri að breyta skerðingarhlutfalli samkvæmt 1. mgr. með reglugerð.

Hérna hefði kannski verið eðlilegt að leyfa ráðherra að lækka skerðingarhlutfallið. Það er 9% í lögunum og það gæti alveg verið eðlilegt að takmörkunin væri slík að ráðherra gæti lækkað skerðingarhlutfallið. En eins og áður segir telur nefndin óæskilegt að veita ráðherra slíka heimild án nánari afmörkunar og leggur því til að málsliðurinn falli brott í staðinn fyrir að fara í einhverja nánari úrvinnslu á því hvernig ráðherra gæti hagað málum varðandi skerðingarhlutfallið í reglugerð, þá er það bara strokað út. Ég skil að vissu leyti að nefndin hafi ekki farið út í nánari útfærslu varðandi það hvernig ráðherra gæti breytt skerðingarhlutföllum með reglugerð af því að verið var að vinna málið bara í lok þings. Nefndarálitið kemur út 1. júní og lögin eru samþykkt 2. júní, bara strax í kjölfarið. Þannig að það er ekkert rosalega mikill tími til að skoða eða skrifa um hvað væri hægt að gera í staðinn. Lausnin þarna var einfaldlega að sleppa því alveg, það er bara 9% skerðingarhlutfall, það er dálítið stærra, hefur meira vægi. Það væri mjög skrýtið í rauninni ef ráðherra hefði heimild til þess að hækka skerðingarhlutfallið í 50%, 75% eða eitthvað svoleiðis. Heimildin virðist vera þannig í lögunum eins og er. Ég efast um að ráðherra myndi grípa til þeirrar heimildar en hún virðist samt vera þarna.

Mig langar til að benda aðeins á að ég held að ef ráðherra hefði vitað af þessari breytingu þingsins frá árinu 2016 þegar hann setti reglugerðina árið 2019, sem tók gildi í upphafi árs 2020, þá hefði hann ekki sett reglugerðina. Ég held að það sé alveg augljóst. Ef hann hefur gert það þrátt fyrir að sjá hver vilji þingsins var þá væri það bara miklu alvarlegra mál. Ég ætla ekki að gefa mér það, ég ætla bara að gefa mér að á sama hátt og þinginu yfirsást að taka burt heimildina í 30. gr. hafi ráðherra og ráðuneytinu yfirsést að þingið vildi ekki að ráðherrann hefði þessa reglugerðarheimild. Það má alveg kalla til hæstv. barna- og menntamálaráðherra, þáverandi velferðar og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason. Hann gæti kannski komið og útskýrt það hérna í atkvæðaskýringu á eftir eða eitthvað svoleiðis, fyrst við erum að fara að greiða atkvæði um þetta, hvernig á þessu stóð þegar reglugerðin var sett árið 2019, hvort hann vissi af þeim vilja þingsins að hann hefði ekki heimild til að setja reglugerð um breytingu á skerðingarhlutfallinu. Það væri, held ég, áhugavert að heyra það sjónarmið. En ég hvet þingið til þess að klára málið — eins og þingið skildi við það árið 2016 en gleymdi að taka þessi tvö orð úr 30. gr., „og skerðingarhlutfall“, þannig að reglugerðin falli úr gildi. Ef ráðherra ætlar að fá eitthvað annað skerðingarhlutfall en 9% þá verður hann bara að koma með það fyrir þingið.

Ég hef ekki áhyggjur af neinum aukaafleiðingum af þeirri ákvörðun, óháð því hvað verður ákveðið varðandi þetta bráðabirgðaákvæði, hvort sem það verður 9% eða 11%, þannig að það er alveg út af fyrir sig alveg sjálfstætt, þannig að það myndi aldrei koma til þess að lagagreinin eins og hún er í núverandi lögum með 9% — hún myndi ekki taka gildi aftur fyrr en í upphafi næsta árs. Þá hefur ráðherra alveg nægan tíma til að koma og klóra sér í hausnum og bæta við eða breyta skerðingarhlutfallinu ef honum hentar. Ég efast um að hann komi með nýja breytingartillögu um að fá reglugerðarheimild. Því var hafnað síðast og ég held að við ættum bara að halda því, því að þetta er mjög skrýtið.

Ég væri hins vegar alveg til í ef það væri heimild til að vera með skerðingarhlutfall að ráðherra gæti lækkað það. Það er mjög eðlilegt að í lögum sé kveðið á um ákveðinn grundvöll, ákveðið hámark eða lágmark með tilliti til réttinda, að ekki sé farið umfram réttindi þeirra sem fá þessar bætur, að það sé ekki skert meira með reglugerð. Það verður að gera með lögum. Það má hins vegar veita meiri réttindi með reglugerð eins og ráðherra verður þó heimilt að gera, sama og með frítekjumarkið. Þar er heimild ráðherra til að bæta í réttindi þeirra sem fá húsnæðisbætur. Ég er að reyna að átta mig á öllum hugtökunum í þessum málaflokki, enda sinni ég þessu aðeins sem staðgengill í þetta skipti. En þessi skilaboð mín eru vonandi orðin mjög skýr og við sjáum til hvernig það fer í atkvæðagreiðslu á eftir.