Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

um fundarstjórn.

[13:44]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Í kjölfar umræðu hérna um hvaða áhrif það hefur þegar ráðherrar sýna ekki aðeins Alþingi óvirðingu með því að svara ekki skriflegum fyrirspurnum heldur fara í bága við þingskapalög um það hverjir tímafrestirnir eiga að vera, þá hlýtur það að hafa áhrif á þingið og framgang mála, eins og hér hefur verið nefnt. Það er í raun og veru eitt af fáum viðbrögðum og verkfærum sem þingið hefur til að bregðast við með tilheyrandi hætti. En ég vil líka vekja athygli á því að það er oft þannig að ráðherra geti svarað fyrirspurnum innan eðlilegs tíma. Ráðherrarnir eru að taka sér dagskrárvald með því að velja úr og bíða með svör, bíða með gögn þegar það hentar ekki að færa þinginu gögn í hendurnar. Það gerir málið enn þá alvarlegra. Það er ekki þannig að það sé einhver innbyggð brekka eða málahalli. Það er ekki alveg tilviljanakennt hvenær svör berast innan frests og hvenær ekki. Ég vek athygli á því að (Forseti hringir.) svarleysið núna við fyrirspurnum mínum um bankasöluna rímar við öll önnur viðbrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli.