Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[18:01]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar líka að nefna lagasetningu og valdhafa. Hv. þingmaður nefndi það að valdhafar væru oft að beita lögunum fyrir sig til að réttlæta gjörðir sínar, til að koma í veg fyrir að verða gagnrýndir. Þá spyr ég: Eigum við að sleppa því að setja lög af því að það er möguleiki á að einhverjir geti misbeitt þeim? Við setjum í raun og veru lög — auðvitað eru sums staðar búin til ólög en þegar við erum að horfa á lög sem gætu hugsanlega varið og verndað einhverja, er þá ekki rétt hjá okkur að gera það þrátt fyrir að einhverjir misvitrir valdhafar séu tilbúnir að nota lögin í eigin þágu? Ég velti því fyrir mér einhverju anarkíi. Eigum við að vera án laga og treysta því bara að fólk hagi sér eins og fólk? Verðum við ekki að ramma inn einhverja umgjörð um hvernig við högum okkur? Ég veit að það er fullt af fólki sem misnotar aðstöðu sína. Erum við ekki á þeim stað að við þurfum að búa til lög til að standa með og verja ákveðna hópa sem eru misrétti beittir í samfélagi okkar? Við heyrðum bara í síðustu viku að einn fjölmiðill fjallaði um trans börn og eftir helgina var litið þannig á að sá fjölmiðill hefði skaðað þau börn með einhverjum hætti. Ég spyr: Eigum við ekki að setja lög um þetta?