Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika og taka undir orð hæstv. ráðherra sem hefur haldið afskaplega vel á þessu máli fyrir Íslands hönd. Ég vil taka undir þessa samstöðu og eindrægni með því að liðka snarlega hér fyrir í þinginu og styðja mjög eindregið umsóknir Finnlands og Svíþjóðar í varnarbandalagið NATO. Þar hefur ráðherrann ótvíræðan stuðning okkar í Viðreisn og fleiri flokka, veit ég. Mig langar að spyrja um kannski tvennt. Það er annars vegar leiðtogafundur í Madríd og það snertir Georgíu og Moldóvu, sem eru líka að sækja um aðild að NATO. Það er auðvitað lýsandi fyrir þessar þjóðir, Úkraínu, Moldóvu, Georgíu, en líka Eystrasaltsríkin á sínum tíma og núna Finnland og Svíþjóð, hvar þau telja öryggi sínu og fullveldi best borgið og það er í samfélagi og samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða eins og við gerum í gegnum NATO. Við vitum það alveg að Georgía og Moldóva uppfylla ekki, sérstaklega ekki Georgía, öll skilyrði sem NATO setur vegna landamæraágreinings, en sá ágreiningur er við Rússa og það voru Rússar einhliða sem sköpuðu þann ágreining með því að ráðast inn í Georgíu á sínum tíma, 2008. Í rauninni uppfyllir Úkraína heldur ekki skilyrði sem NATO setur út af innrás og ofbeldi Rússa í landinu. Þannig að ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að hægt verði að hraða því að Georgía og Moldóva fái inngöngu í NATO. Mér þætti vænt um ef hún gæti farið aðeins yfir þessa þætti. Því fleiri sem vestrænar lýðræðisþjóðir eru saman í því bandalagi, því sterkari erum við í því að verja þessi gildi okkar sem eru svo dýrmæt; lýðræði, frelsi og mannréttindi.