Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[20:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á þetta lagafrumvarp um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd um að kanna starfsemi vöggustofa og hv. framsögumaður fór ágætlega yfir. Því miður erum við enn að fást við dapurleg og ömurleg mál eins og þau sem hér eru undir og höfum verið að takast á við núna í ansi mörg ár, eins og við þekkjum. Þar hefur verið horft til barna og sanngirnisbætur hafa verið greiddar börnum sem hafa búið við ömurlegar aðstæður. Eins og hér var einmitt komið inn á voru þau gjarnan send í vist þar sem þau áttu að vera örugg en voru það ekki. Nú síðast heyrðum við af málum á Hjalteyri. Því miður virðist víða hafa verið brotalöm í kerfinu okkar. Ég held að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að nefndarmenn sem koma að þessu og fara að rannsaka þetta séu meðvitaðir um þann tíðaranda sem var þá en þrátt fyrir allt voru konur almennt heima eða að gæta barna eins og á slíkum vöggustofum eins og hér eru undir og allt annað samfélagslegt viðmið en er í dag. Það er mjög mikilvægt, held ég, að það fólk sem þarna er undir og þeirra fjölskyldur fái, ef hægt er að kalla það réttlæti, sem kannski er ekki hægt að segja í þessu, alla vega einhvers konar uppgjör. Það er auðvitað afar dapurt að þarna var fyrst og fremst um fátækar mæður að ræða og döpur staða þeirra varð til þess, eins og sá sem talaði hér á undan mér sagði, að börnin voru nánast tekin af þeim, ef hægt er að orða það þannig, vegna þess að aðstæður voru þannig og engin tilfinningaleg tengsl sem hægt var að mynda svo neinu skipti.

Ég ætla bara að lýsa því að ég er mjög ánægð með þessa breytingu sem nefndin er að gera varðandi skjalameðferðina. Ég held að það sé afar brýnt að allt verði opnað upp á gátt þannig að hægt sé að komast að sem flestum gögnum sem varpað geta ljósi og heildstæðari mynd á þetta og þeim síðan lokað aftur, enda um afar viðkvæm mál að ræða. En ég tek bara undir það sem hér var sagt, ég vona að þetta mál nái hratt fram að ganga og þegar að því kemur að rannsókn lýkur þá vona ég svo sannarlega að niðurstaðan verði með þeim hætti að fólk fái eitthvert uppgjör vegna sinna mála.