Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[11:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessa munnlegu skýrslu og þessa áhugaverðu og ágætu hugmynd. Hann gerir töluvert að umtalsefni vilja stjórnvalda til að dreifa störfum um allt land og það í sjálfu sér er gott en líka nauðsynlegt markmið. Við skulum algerlega hafa það í huga í upphafi að þó að gjarnan sé talað um Ísland sem strjálbýlt land þá fer það nú bara eftir því hvernig á hlutina er litið. Sú staðreynd að 70–80% allra landsmanna búa á mjög afmörkuðu svæði sem við köllum höfuðborgarsvæðið setur okkur í sama flokk og kannski fjögur, fimm önnur ríki í heiminum; Panama, Kúveit, Djíbútí í Afríku og Mongólía, og slíkt er ekki hagkvæmt. Það er heldur ekki skynsamlegt. Það felst eiginlega ekkert réttlæti í því vegna þess að þegar við erum komin með svoleiðis aðstæður getum svo auðveldlega lent í því að þyngdaraflið verði bara orðið of sterkt og sogi og dragi allt til sín, svo ég tali nú ekki um hvað það er sérstakt á landi sem er eldvirkt. Þá getur bara falist í því stór kerfisáhætta. Því er skynsamlegt að hugsa þetta í víðara samhengi og það er góð stefna að flytja stofnanir, ekki síst yfirstjórn stofnana nærri þeim stöðum þar sem þær stofnanir eru og þeim er ætlað að sinna og þjóna og að ákvarðanir séu teknar næst því umhverfi sem þær ákvarðanir eru teknar.

En auðvitað er ekki sama hvernig það er gert eins og dæmin sanna. Það er heldur ekki góð aðferð að gera það með handafli, rífa fólk upp með skömmum fyrirvara og flytja það strax á nýjan stað. Það missir þá væntanlega vinnuna sem kannski er sjálft lífsstarfið. Við höfum séð allt of margar slíkar ákvarðanir sem stundum byggja jafnvel bara á sérstöku áhugamáli einstakra ráðherra eða búsetu þeirra, kjördæmi og öðru. Við þurfum að gera þetta að náttúrulegum þætti í okkar stefnumótun þannig að þetta verði sem eðlilegast og sársaukaminnst. Ný tækni hjálpar okkur talsvert í þessum efnum og gerir okkur kleift að vinna ýmis verkefni í fjarvinnslu, hvort sem við erum að tala um fólk sem býr nærri stjórnsýslunni á höfuðborgarsvæðinu og þarf að vinna verkefni úti á landi eða fólk sem býr annars staðar, í dreifðari byggðum, en starfar fyrir stofnun sem staðsett er í Reykjavík. Tæknin virkar nefnilega í báðar áttir. En það þarf að huga mjög vel að því að uppbygging sé sem skynsamlegust fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar. Ef við leyfum okkur að skutlast aðeins yfir í byggðastefnuna þá held ég að við Íslendingar þurfum einhvern veginn að taka markviss skref og setja ekki fjórðung af störfum hingað og þriðjung þangað og tvö og hálft þarna, allt eftir búsetu. Við þurfum að setja niður einhverja þyngdarpunkta, t.d. höfuðborgarsvæðið, sem er augljóst. Höfuðborgin okkar skiptir mjög miklu máli. Síðan sé ég fyrir mér að næsti þyngdarpunktur sem sjónum yrði beint að væri Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið og síðan kannski annar fyrir austan og sunnan þegar fram líða stundir til þess að það sé ekki bara valkostur að byggja allt landið heldur að við sjáum til þess að það sé allt í byggð og að við getum líka komið í veg fyrir ýmsa kerfisáhættu.

Þessi nýja tækni sem ég talaði um áðan getur einmitt dregið úr þeirri sjálfvirku þróun að öll stjórnunarstörf og allar stofnanir á endanum séu staðsettar í Reykjavík og leiti þangað. Maður þarf ekki einu sinni að horfa aðeins til opinberra stofnana. Við sem búum úti á landi sjáum að mörg þeirra stóru og burðarmiklu fyrirtækja sem þar eru er meira og minna stýrt orðið frá höfuðborginni og svo verða eftir láglaunastörfin, þessi óbreyttu störf. Ef fólk kallar eftir vexti byggðanna og styrkleika þeirra þá verðum við sem búum annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu líka að geta boðið upp á fjölbreytt störf þannig að við sjáum ekki á eftir börnunum okkar í háskóla til Reykjavíkur eða til útlanda og enginn möguleiki fyrir þau, þó að þau vildu, að snúa til baka.

Auðvitað hefði ég viljað tala miklu meira um sjálfan Vatnajökulsþjóðgarð og hálendisþjóðgarð sem er mjög mikilvægt fyrirbæri. Það er ekki þannig að það sé sett upp til að takmarka för fólks um landið heldur þvert á móti til þess að laða fólk að og gefa því möguleika á að njóta alls þess góða sem landið hefur upp á að bjóða. En af því ráðherra einbeitti sér töluvert að því hlutverki sínu að færa starfsstöð út á land þá fagna ég því í sjálfu sér. En ég brýni hann og aðra ráðherra og stjórnvöld hverju sinni að gera allt slíkt af auðmýkt gagnvart því fólki sem sinnir störfunum og gera það með þeim hætti að það sé sem sársaukaminnst fyrir þá sem þurfa að leita út á land og líka þau byggðarlög sem taka við slíkum starfsstöðvum.