Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[11:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu ráðherra um flutning aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs. Aðsetrið hefur hingað til verið í Garðabæ en nú stendur til að flytja það á Höfn í Hornafirði. Þar á það heima. Auðvitað á það heima í nágrenni við jökulinn, það svæði sem um er að ræða. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér að það er fólk á bak við svona flutninga sem við verðum að taka tillit til og vonandi verður hægt að gera þetta í sátt og samlyndi við alla, sem væri óskandi.

Ég fagna þessum áætlunum enda er Höfn í Hornafirði tilvalinn í staðinn fyrir aðsetur Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar að auki, eins og við vitum öll sem höfum þangað komið, er þar stórkostlegt útsýni. Frá Hornafirði er hægt að virða fyrir sér jökulinn og sjá marga tignarlega skriðjökla, til dæmis Hoffellssjökull, Heinabergsjökul, Fláajökul og Svínafellsjökul. Þetta er stórkostlegt svæði. Auki þess er stutt í vinsæla ferðamannastaði innan þjóðgarðsins, nánar tiltekið Jökulsárlón og Skaftafell. Ég man þá tíð að ég fór varla mikið austar en yfir Markarfljót. Jú, maður náði að Skógum og Kirkjubæjarklaustri og í Þórsmörk. En maður fór aldrei austar en það. Þetta svæði opnaðist fyrir manni þegar maður fór hringveginn. Maður man upplifunina að fara hringveginn fyrsta skipti. Þá var maður að sjá hluta af Íslandi sem maður vissi ekki einu sinni að væri til. Hið sama gerðist þegar maður fór hinn leiðina, Sprengisandsleiðina, kom að norðan. Ég fór nokkuð oft í Veiðivötn og á það svæði sem er stórkostleg perla

Svo er annað sem við þurfum líka að fylgjast með. Það eru þær breytingar sem eru að verða á jöklunum. Það eru að verða gífurlegar breytingar og á sama tíma og þessar breytingar eiga sér stað fjölgar ferðamönnum og við vitum að innan þessa þjóðgarðs eru stórkostlega hættuleg svæði sem þarf að sinna vel. Eins hef ég tekið eftir því að í Skaftafelli eru aðstæður til fyrirmyndar og það hvernig gengið hefur verið í að gera allt aðgengilegt þannig að sem minnst áhætta stafi af bæði fyrir innlenda ferðamenn og erlenda. Við vitum að Vatnajökulsþjóðgarður hefur að geyma margar af fegurstu náttúruperlum landsins og okkur ber skylda til að varðveita þær. Því miður er raunin sú að loftslagsváin hefur þegar haft mikil áhrif á jökla landsins. Vatnajökull er þar engin undantekning. Það er afar mikilvægt að samhliða tengdum verkefnum fari fram rannsóknir á áhrifum hlýnandi loftslags á náttúru þjóðgarðsins. Við verðum að fylgjast með. Við verðum að passa upp á að sjá til þess að fylgjast vel með hvað sé í gangi. Við vitum að Jökulsárlón var aðallónið. Nú er komið annað lón og það þriðja er að myndast. Þangað munu streyma ferðamenn.

Það gleymist oft í umræðunni um merkar náttúruminjar landsins að ekki er á allra færi að skoða þær. Aðgengismál þarf að bæta á mörgum stöðum og þar er Vatnajökulsþjóðgarður engin undantekning þótt ákveðin skref hafa verið stigin á undanförnum árum. Ég vona innilega að stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs og hæstv. ráðherra muni setja sér það markmið að bæta eftir fremstu getu aðgengi að helstu náttúruperlum í þjóðgörðum á næstu árum svo allir geti virt fyrir sér þessa þjóðargersemi. Þarna er ég einmitt að tala um þá sem hafa minnsta möguleika á því að komast á þess staði. Þarna erum við að tala um fólk á hækjum, í göngugrind, hjólastólum, fólk sem hefur ekki þá aðstöðu að geta komist auðveldlega að þessum stöðum. Því miður vill þetta oft gleymast. Það vill oft gleymast að þessir einstaklingar hafa jafn mikla þörf á að komast inn í þjóðgarða og njóta þeirra eins og aðrir sem eiga mun auðveldara með að koma komast á staðina. Þá kemur oft upp þetta sjónarmið að þá þurfi að leggja almennilega vegi og þá yrði meiri umferð og þá yrði meira tjón á náttúrunni. En við getum ekki horft á þetta í því samhengi. Við getum ekki mismunað fólki eftir því hvort það eigi risastóran jeppa á risadekkjum og geti komist allt, jafnvel utanvega og valdið tjóni, eða hvort einhver vilji komast á ákveðinn stað, útsýnisstað, eða að njóta þess að komast út í frábæra náttúruna. Þetta verðum við að tryggja og við verðum að sjá til þess að í svona tilfellum sé ekki veittur afsláttur á aðstöðu og aðgengi sem verið er að byggja upp. Við verðum og eigum að tryggja að allir hafi jaft aðgengi að náttúru landsins óháð möguleika þeirra til þess að komast á staðinn.

Að þessu sögðu held ég að þetta sé hið besta mál. Mér finnst það algjörlega rétt að koma þessu aðsetri eins nálægt þessu umhverfi og hægt er. Þarna á að hafa þetta. Höfn í Hornafirði er alveg kjörinn staður til að koma þessari uppbyggingu af stað. Ég vona svo heitt og innilega að ráðherra sjái til þess að vel verði fylgst með náttúrunni og að líka verði séð til þess að hafa það í forgangi að allt aðgengi sem verið er að byggja upp og hanna verði fyrir alla en ekki bara þá sem eru heilbrigðir og geta komist auðveldlega leiðar sinnar.