Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[12:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir sína skýrslugjöf en ekki síður bara fyrir það embættisverk sem skýrslugjöfin er um og ég tel vera mikla framför. Ég fagna því hversu hratt og vel var staðið að verki í þessu. Það skiptir máli að senda skýr skilaboð strax um það hvernig stjórnvöld vilja sjá þetta byggjast upp og að svolítið sé verið að fara eftir markmiði laganna. Það er rétt að hafa það strax í huga hver grunnmarkmiðin eru með lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þau eru fyrst og fremst að vernda náttúru og umhverfi og lífríki og annað slíkt. Þau eru að gefa almenningi kost á að sjá og njóta landsins og þeirra náttúruundra sem við eigum og stuðla að rannsóknum og vöktun og þekkingu á náttúrunni og lífríkinu og samfélaginu og minjum og öllu sem tengist þjóðgarðinum og styrkja byggð, styrkja byggð í kringum þjóðgarðinn.

Ég tel að þessum markmiðum verði náð langbest með því að þeir sem sjá um daglegan rekstur og stýra og starfa í þjóðgarðinum séu sem næst öllum þessum atriðum og lifi og hrærist í sama umhverfi og byggð og atvinnulífi og áskorunum, því vissulega eru margar áskoranir.

Þá vil ég aðeins fara yfir þróun síðustu ára. Ég vil hrósa stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og ekki síst starfsfólkinu sem hefur unnið ótrúlega öflugt og gott starf undanfarin ár við að byggja upp innri starfsemi þjóðgarðsins til að geta tekist á við allar þessar áskoranir. Þær hafa verið krefjandi af því að þjóðgarðurinn er jú stór og nær yfir mikið landsvæði. Hann er mjög fjölbreyttur með flókið og öðruvísi rekstrarumhverfi. En á sama tíma hefur ferðamönnum fjölgað. Það hafa verið loftslagsbreytingar og það hafa verið margar áskoranir. Hann hefur verið að stækka og mörg verkefni eru komin inn og þessu tengt þá hefur verið að byggjast upp miðlæg stoðþjónusta innan þjóðgarðsins jafnt og þétt. Það er kominn skrifstofustjóri, fjármálastjóri, lögfræðingur, mannvirkja- og gæðafulltrúi, mannauðsstjóri, fræðslufulltrúi og áfram mætti telja. Þetta er mjög mikilvægt til að hægt sé að takast á við öll þau fjölbreyttu verkefni sem eru þarna og svo hjálpar það þeirri kjarnastarfsemi sem er á öllum svæðunum. Þjóðgarðinum er skipt í svæði og á hverju svæði eru einn til fleiri þjóðgarðsverðir og aðstoðarþjóðgarðsverðir með svo landverði og annað starfsfólk sem ber ábyrgð á hverju svæði og vinnur með sínu svæðisráði. Allt þarf þetta að spila saman.

Eins og gefur að skilja nær þjóðgarðurinn yfir ansi stórt landsvæði og tilheyrir ansi mörgum sveitarfélögum þannig að starfsstöðvar hans munu alltaf vera dreifðar. Þá skulum við hafa það á hreinu að það eru nokkrar lögbundnar starfsstöðvar í þjóðgarðinum. Þær eru: Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustur, Hornafjörður, Skaftafell og Kirkjubæjarklaustur. Það er samþykkt fyrir því í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að það eigi að auglýsa störf sérfræðinganna í þessari stoðþjónustu á einhverri af þessum lögbundnu starfsstöðvum. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Þarna tók stjórnin þessa ákvörðun til að hefja þessa þróun sem mér finnst ráðherra svo vera að festa í sessi með því að taka þá ákvörðun um að færa höfuðstöðvarnar á Hornafjörð. Sú ákvörðun tengist því Hornafirði beint að forstjórinn er þar. En aðrar sérfræðistöður og miðlægar stöður innan þjóðgarðsins geta verið á öllum þessum lögbundnu starfsstöðvum og þeim skipt vel á milli og mér finnst það skipta gríðarlegu máli.

Í lokin vil ég segja að í þessu sambandi skipta sveitarfélögin miklu máli, í skipulagsmálum og öðrum aðbúnaði, þau sjái um að til sé starfsaðstaða og að til sé íbúðarhúsnæði og aðstæður svo fólk geti og vilji flytja á þessar starfsstöðvar þannig að þegar þjóðgarðurinn auglýsir eftir starfi og hæfur einstaklingur vill sækja um þá geti hann flutt á viðkomandi starfsstöð og geti valið sér búsetu. Það er grundvöllur fyrir að þetta geti gengið.