Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur tekið til umfjöllunar skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu, fengið til sín gesti og fjallað um umfjöllun ríkisendurskoðanda og tillögur hans til úrbóta. Álit nefndarinnar liggur fyrir á þskj. 1154, 723. mál, og ég hygg að þingmenn geti kynnt sér álitið á vef Alþingis ef þeir hafa ekki nú þegar lesið það. Ég hyggst því ekki lesa það frá orði til orðs hér í dag. Ég vil vekja athygli á því að eftir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lauk umfjöllun sinni og ritaði álitið fór skýrslan til hv. velferðarnefndar þar sem hún er til umfjöllunar og ég á von á því að það sem fram kemur í skýrslunni, sem er viðamikil og góð, verði leiðarljós í umfjöllun velferðarnefndar um geðheilbrigðismál og þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu til framtíðar.

Mig langar að þessu sinni til að fara í stuttu máli yfir tillögur til úrbóta sem gerðar eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þær eru sjö og þær varpa mjög skýru ljósi á stöðu þessa mikilvæga málaflokks og sýna því miður hve mörgu er ábótavant í þjónustu við þau sem þurfa að leita sér lækninga í geðheilbrigðiskerfinu hér á landi. Þetta eru margs konar skavankar. Þeir varða bæði kerfið sem slíkt, útfærslu þess, skipulagningu, upplýsingasöfnun, en einnig það sem ég tel vera jaðarsetningu þessa málaflokks og þá á ég við jaðarsetningu innan heilbrigðiskerfisins og ég á líka við jaðarsetningu almennt í samfélaginu. Stóra verkefnið okkar er að vinna gegn fordómum í garð þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir einhvern tímann á lífsleiðinni og að efla heilbrigðisþjónustu við þau sem þurfa á henni að halda þegar þau þurfa á henni að halda. Það hlýtur að vera stærsta verkefnið okkar hér sem fjárveitingavalds, okkar sem tökum stefnumótandi ákvarðanir um það hvernig við viljum forgangsraða innan kerfa og milli kerfa og líka innan heilbrigðiskerfisins.

Fyrsta tillaga ríkisendurskoðanda til umbóta er sú að efla þurfi söfnun upplýsinga, greiningu og utanumhald. Það vantar yfirsýn í málaflokkinn og það kemur berlega í ljós í skýrslunni. Meðal þess sem þarf að gera er að eyða lagalegri óvissu um skil á gögnum til embættis landlæknis, koma á laggirnar miðlægri biðlistaskrá og halda skrá um beitingu þvingunarúrræða þegar þeim er beitt. Það þarf líka að skrá betur óvænt atvik sem verða í geðheilbrigðisþjónustu og kvartanir þeim tengdar. Loks þarf, og það er ekki lítið mál undir fyrsta lið, að greina þjónustu og mannaflaþörf í heilbrigðiskerfinu og auka yfirsýn ráðuneytisins. Eins og hv. þingmönnum er væntanlega kunnugt hefur verið sett á fót mannaflaráð, held ég að það heiti, á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem er að rýna stöðuna í mönnun og nýliðun í heilbrigðiskerfinu. Það liggur fyrir og hefur verið til umfjöllunar á undanförnum dögum að það vantar tugi hjúkrunarfræðinga inn í heilbrigðiskerfið, eina 50 held ég að megi segja. Við höfum ekki útskrifað eða brautskráð nýjan sérfræðing í geðlæknisfræðum í ein fjögur ár. Það er mjög alvarleg staða. Ég er þeirrar skoðunar að ráðamenn, heilbrigðisráðherra og aðrir í ríkisstjórn og að sjálfsögðu þingmenn líka, þurfi að taka umræðuna um það hvernig við löðum fólk til náms í þessum greinum, ungt fólk, líka eldra fólk, líka þau sem vilja skipta um starfsvettvang t.d., hvernig við auðveldum þeim að afla sér menntunar í heilbrigðisgreinum og hvernig við síðan, þegar fólk hefur aflað sér kunnáttunnar og menntunarinnar, búum þannig um heilbrigðiskerfið sem vinnustað — það eru auðvitað fjölmargir vinnustaðir, tugir, ef ekki hundruð — að fólk endist í vinnunni og geti starfað þar og varið kröftum sínum í þessi mikilvægu störf. Það verður líka að vekja athygli á erfiðleikunum við að afla upplýsinga í kerfinu. Það verður að gera gangskör í því að eyða lagalegri óvissu og á það er bent í áliti nefndarinnar. Það verður að koma því þannig fyrir í löggjöfinni að heilbrigðisstarfsfólk, sjálfstætt starfandi læknar t.d., komist ekki upp með að skila ekki upplýsingum til landlæknis. Við þurfum að hafa yfirsýn yfir þetta kerfi eins og öll önnur og við þurfum að vita um fjölda tilfella, um sjúkdómsgreiningar og annað til þess að geta síðan veitt betri heilbrigðisþjónustu. Um skráningu atvika þarf í raun ekki að hafa mörg orð. Það segir sig sjálft að það er algjörlega nauðsynlegt að skrá alvarleg atvik. Það þarf einnig að skrá kvartanir sem berast.

Önnur tillagan varðar það mikilvæga verkefni að tryggja sjúklingum samfellda þjónustu. Það er allt of mikið um það að þjónustuveitendur ræði ekki saman eða að kerfin tali ekki saman, heilbrigðis- og félagskerfi oftast en stundum innan heilbrigðiskerfisins, þegar veita þarf þjónustu. Auðvitað eru það ekki kerfin sem ekki eru að tala saman heldur fólkið sem er að vinna í kerfunum. Það er ekki að skiptast á upplýsingum og er ekki að sjá til þess að sjúklingurinn komist snurðulaust úr einni þjónustu í aðra ef á því er þörf. Það þarf að skoða hér, segir ríkisendurskoðandi, hvort formbinda skuli skyldu stofnana og þjónustuveitenda í heilbrigðis- og félagskerfinu til að vinna saman og jafnvel að kanna hvort það sé þannig að sumir sem þurfa þjónustu, eru kannski alvarlega veikir, fái málastjóra og er þar vísað í hugmyndafræði farsældarlaganna og það að hægt sé að fylgja einstaklingi eftir og málastjóri sjái til þess að viðkomandi einstaklingur fái þá þjónustu sem honum eða henni ber. Upplýsingagjöf til sjúklinga er mjög mikilvæg og einnig til aðstandenda og við verðum hreinlega að búa þannig um hnútana að það sé ljóst að sjúklingur sé alltaf upplýstur um hvers vegna hann er að fá þjónustu og hvernig og að alltaf sé tryggt að ef um samþykki er að ræða þá sé það upplýst samþykki.

Þriðja atriðið sem Ríkisendurskoðun nefnir eru svokölluð grá svæði í geðheilbrigðisþjónustu. Gráu svæðin eru þau svæði sem einstaklingar geta lent á ef þeir fá ekki viðeigandi þjónustu. Að sögn eru þessi svæði vel þekkt innan kerfisins en það gengur illa að fækka þeim og við verðum að gera betur í því. Ástæða þess að það gengur illa að fækka þeim er sögð vera sú að ágreiningur sé um ábyrgðar- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og einnig óskýr ábyrgðarskipting milli þjónustustiga í heilbrigðiskerfinu. Eins og kunnugt er hefur skiptingin á milli fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu í heilbrigðiskerfinu verið lögfest og það er mjög mikilvægt. Það er hins vegar ekki eins skýrt hvar nákvæmlega eigi að veita þjónustuna á fyrsta stigi, öðru stigi og þriðja stigi þegar á reynir.

Það er líka mjög mikilvægt hér, og er auðvitað viðfangsefni sem stjórnvöldum hefur algerlega mistekist að leysa, að leysa ágreining um ábyrgðar- og kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það eru allt of mörg mál sem lenda á gráa svæðinu þarna á milli og þá gleymast einstaklingarnir, þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa. Þeir eru fastir á biðlistum eða jafnvel ekki með neina þjónustu í augsýn. Og hvað þýðir það? Það þýðir að þessir sömu sjúklingar eru í raun á ábyrgð sinna nánustu en ekki í þjónustu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það þarf að draga úr þeim hvötum sem Ríkisendurskoðun segir að séu í kerfinu, og ég ber ekki brigður á það, að hægt sé að vísa erfiðum og kostnaðarsömum málum frá sér eða á milli kerfa. Það má ekki vera þannig, hvorki milli sveitarfélaga né milli ríkis og sveitarfélaga eða innan heilbrigðiskerfisins, en því miður gerist það örugglega of oft að fólki er vísað þarna á milli vegna þess að hagsýnir stjórnendur sjá hreinlega að þeir hafi ekki efni á að halda úti þjónustunni vegna fjárveitinga. Þannig getur þetta ekki verið.

Í fjórða lagi er bent á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, tímanlegt aðgengi samkvæmt skilgreindum viðmiðum um biðtíma. Það er fátt eins mikilvægt þegar fólk veikist, ég tala nú ekki um ef það veikist alvarlega, og að það fái þjónustu strax. Það verður að búa þannig um hnútana að fólk sé ekki fast á biðlistum vikum og mánuðum saman, ég tala ekki um þegar við erum að fjalla um börn og ungmenni. Það er algerlega óviðunandi að kerfið okkar sé með þeim hætti. Það þarf líka að jafna aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu með tilliti til landsbyggðanna. Að því sögðu vil ég benda á að í skýrslunni kemur fram að biðtími er í sumum tilvikum lengstur á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki einhlítt að það sé lengri bið úti um landið en það er hins vegar þannig að það eru ákveðin verk í heilbrigðisþjónustunni þar sem biðin er allt of löng og það skerðir að sjálfsögðu lífsgæði þeirra sem bíða eftir þjónustunni. Það er ekki við það unandi að fólk sem er alvarlega veikt þurfi að bíða vikum og mánuðum saman eftir því einu að komast inn fyrir þröskuldinn á heilbrigðiskerfinu.

Mönnun og sérhæfing starfsfólks er fimmta ábendingin. Um það atriði mætti að sjálfsögðu hafa mjög langt mál og ræða um það með tilliti til launa og kjara, starfsumhverfis og húsnæðismála innan heilbrigðiskerfisins. Það er ósköp einfaldlega þannig að okkur vantar fleira fagfólk inn í heilbrigðiskerfið. Okkur vantar fleiri í geðheilbrigðiskerfið, okkur vantar fleiri geðlækna, geðhjúkrunarfræðinga. Okkur vantar fleiri sjúkraliða sem hafa sérþekkingu á þessum málum og sem betur fer er það þannig að hægt er að afla sér viðbótardiplómanáms fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Okkur vantar fleiri sálfræðinga og félagsráðgjafa. Í mínum huga er það alveg skýrt að það er hlutverk stjórnvalda að laða fólk til náms og starfa svo að við getum mannað kerfið og að við höldum þar inni bestu fáanlegu þekkingu og göngum ekki svo fram af starfsfólki í heilbrigðiskerfinu að það sjái sér ekki fært að vinna þar. Auðvitað skipta laun máli en starfsumhverfi, starfsaðstæður, álag og annað slíkt skiptir líka mjög miklu máli, svo að ég fari ekki út í umræðuna, sem er reyndar ekki hér til umfjöllunar, um þörfina á nýjum geðdeildum og viðunandi húsnæði fyrir geðdeildirnar, t.d. eins og á Landspítalanum, nútímalegt húsnæði sem svarar þeim kröfum sem gerðar eru til geðlækninga og geðhjúkrunar á 21. öldinni.

Í sjötta lagi þarf að tryggja tilvist geðheilsuteyma. Það er, held ég, algjörlega óumdeilt, þvert á alla flokka, að geðheilsuteymi heilsugæslustöðva landsins hafa slegið í gegn, langar mig að segja. Þau hafa a.m.k. svarað mjög mikilli þörf. Það sjáum við í tölunum í skýrslunni og við sjáum að þau eru gott dæmi um góða þverfaglega fyrsta stigs geðheilbrigðisþjónustu, gott dæmi um það hvernig eigi að vinna. Við erum öll, og nefndin er það að sjálfsögðu líka, sammála um að tryggja tilvist þeirra og fjárveitingar til þeirra og við ræddum það reyndar einnig að slík fagleg þjónusta þyrfti að vera fyrir hendi fyrir börn og ungmenni. En við þurfum auðvitað að sjá hvernig innleiðing farsældarlaganna svarar því. Þar eru líka brýn verkefni. Í nefndinni var einnig fjallað um það að til þess að tryggja þetta samtal, sem við erum alltaf að tala um á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu, sé mjög mikilvægt, og auðvitað er það víða þannig, að það sé fulltrúi úr félagsþjónustu í geðheilsuteymi á heilsugæslu. Það er gott að geta nefnt þetta dæmi um eitthvað sem er vel heppnað og virkar og svarar þörfinni.

Sjöunda atriðið er um aðgerðaáætlanir og eftirfylgni þeirra, mjög mikilvægt atriði. Í ljósi þess að til umfjöllunar á þinginu er stefna í geðheilbrigðisþjónustu til 2030 ætla ég að leyfa mér að halda því fram að við þurfum jafnvel að horfa lengra. Við þurfum að gera tíu ára plan en við þurfum líka að horfa til 20 ára og eins langt fram og við komumst með tilliti til þeirra breytinga sem við vitum að verða á samsetningu þjóðarinnar, á tíðni geðsjúkdóma, það sem við vitum og höfum séð í rannsóknum erlendis um það við hvað er að etja í samtímanum. Ég vil taka undir þau tilmæli Ríkisendurskoðunar að tryggja þurfi eftirlit og eftirfylgni með aðgerðum og meta árangur aðgerðanna. En í einni setningu þá erum við að ræða hér um að langtímasýn, langtímastefna, í geðheilbrigðisþjónustu liggi fyrir og um hana sé sem mest samstaða þannig að við séum sammála um að fjármagna þær aðgerðir sem ráðast þarf í. Þær liggja ekki fyrir eins og staðan er í dag. Við þurfum nákvæma aðgerðaáætlun sem byggir á stefnu sem vonandi tekst að afgreiða hér fljótlega.

Síðast en ekki síst þurfa fulltrúar allra flokka á Alþingi að muna að það þarf pólitískt þrek til að gera langtímabreytingar. Það þarf pólitískt þrek og staðfestu til þess að hrinda þessum veruleika í framkvæmd, að tryggja að við verðum árið 2030 eða 2040 þar sem við viljum vera í samræmi við stefnuna og að við höfum haft pólitískt þrek til að fjármagna þær aðgerðir sem við verðum að fara í. Um það verðum við að ná saman af því að hér er um að ræða einhvern mikilvægasta þátt heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem ríki og sveitarfélög halda úti. Við vitum að ef vel tekst til í geðheilbrigðisþjónustu þá erum við ekki bara að bæta lífsgæði sjúklinga og aðstandenda og heilsu heldur erum við að bæta lífsgæði í samfélaginu. Við erum að efla samfélagið og við erum að gefa fólki miklu fleiri tækifæri til að láta drauma sína rætast en við myndum gera ef við gerðum þetta ekki.