Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og ég ætla aðeins að nýta tækifærið og fá að svara henni. Þetta er svolítið spurning um hvernig menn velja sér sjónarhorn. Ég gat ekki heyrt betur á hv. þingmanni en að skýrslan væri bara nokkuð fín, það væru þar einhverjir vankantar sem væri bent á en að öðru leyti væri hún bara býsna góð. Ég tek eftir því að stjórnarliðar sem hingað koma í umræðuna tala svolítið út frá því sem segir í skýrslunni, um að í megindráttum sé skipulag heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu stjórnvalda um þrjú þjónustustig og að rétt þjónusta skuli veitt á réttum stað. Það ætti því að vera til þess fallið að stuðla að árangri í málaflokknum, segir líka, en ákveðnir vankantar séu hins vegar á kerfinu sem dragi úr árangri við framkvæmd. Á þessu hafa menn svolítið hangið, að það sé framkvæmdin en ekki stefnan sem eitthvað athugavert sé við.

Þá geta menn kannski líka lesið aðra kafla í skýrslunni, eins og til að mynda þennan:

„Eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi eykst ár frá ári. Þrátt fyrir sókn í málaflokknum er geta stjórnvalda til að tryggja þá þjónustu sem þörf er á undir væntingum og bið eftir þjónustu almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld skortir yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála en upplýsingar um tíðni og þróun geðsjúkdóma liggja ekki fyrir og ekki hefur farið fram greining á þjónustu- og mannaflaþörf Landspítala. Ekki er haldin miðlæg skrá um biðlista og upplýsingar um fjárþörf og raunkostnað geðheilbrigðisþjónustunnar liggja ekki á reiðum höndum. Tölur um óvænt eða alvarleg atvik við veitingu geðheilbrigðisþjónustu eru ekki með góðu móti aðgengilegar og á það einnig við um fjölda kvartana til embættis landlæknis. Þá er skráning á beitingu þvingunarúrræða ekki til staðar.“

Ríkisendurskoðun telur brýnt að bætt verði úr þessu og svo er talað um gráu svæðin þar sem einstaklingar lenda á milli úrræða og fá ekki viðeigandi þjónustu. Þessi svæði hafa verið þekkt lengi en það gengur ekkert að fækka þeim, segir líka, og síðan er líka talað um að ekkert hafi gengið að fækka þeim þrátt fyrir að menn hafi raunverulega farið í það verkefni. Það er því eiginlega alveg sama hvar menn koma að skýrslunni. Hún er ótrúlega dökk, hún er eiginlega algerlega kolsvört, áfellisdómur yfir þeim (Forseti hringir.) flokkum sem farið hafa með stjórn þessara mála. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að deilur stjórnarflokkanna á síðasta kjörtímabili, allt það sem þar kom fram, séu ekki öðrum þræði að koma fram í þessari skýrslu á annarri hverri síðu.