Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu minni um skýrsluna og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fjallaði ég um langflesta þá þætti sem hv. þingmaður nefndi hérna sem það sem betur mætti fara, þannig að ég er ekkert að reyna að strika yfir það, nema reyndar að ég viðurkenni að ég fjallaði ekki um gráu svæðin. Ég hafði einfaldlega ekki tíma til þess í ræðu minni. En þar er svo sannarlega staður þar sem við þurfum að bæta okkur. Ég fjallaði sérstaklega um að við þyrftum að vanda okkur við það þegar kæmi að ábendingum varðandi OPCAT-eftirlitið. Það er verkefni sem bíður okkar enn þá.

Ég veit ekki alveg hvaða tilgangi það þjónar að standa hér í einhverjum deilum um orð, hvort þetta sé kolsvört skýrsla eða skýrsla sem gefi gagnlegar ábendingar um hluti sem er gríðarlega mikilvægt að betur verði farið með. Það eru atriði sem þarf vissulega að bæta hérna. En líkt og ég er búin að segja margoft áður þá eru líka atriði sem virka vel og ég fagna því svo sannarlega að umræða um geðheilbrigðismál sé að aukast. Við erum sem samfélag sem betur fer að gera kröfu um betri geðheilbrigðisþjónustu. Hefði þessi umræða verið komin á þennan stað fyrir tíu árum værum við örugglega með betra kerfi þar. En ég segi bara: Tökum þessa skýrslu og vinnum með hana áfram, bæði það sem er jákvætt en svo sannarlega auðvitað líka það sem þarf að gera miklu betur.