Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:25]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að allir geti tekið undir það að það vantaði fjármagn inn í rekstur geðheilbrigðiskerfis okkar Íslendinga og ríkisstjórnin hefur á síðasta kjörtímabili sett umtalsvert fjármagn til viðbótar í það. Ég nefndi í upphafi máls míns áðan dæmi um aukið fjármagn sem kom til og hefur nýst vel í mínu kjördæmi með stofnun sérstaks geðheilbrigðisteymis. Ekki er hægt að setja svoleiðis teymi upp öðruvísi en að auka fjármagn eins og gert var. Það liggur í hlutarins eðli að ef á að fara að fjölga starfsfólki og fjölga sérfræðingum þá þarf fjármagn að koma til. En fjármálaráðherra hefur einnig margoft tekið fram að það er gríðarlegt magn af fjármunum inni í kerfinu og við þurfum líka að fara vel með það fé sem þar er.