Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið og ég er alveg innilega sammála honum. Aðalvandamálið í geðheilbrigðiskerfinu eru þessir biðlistar barna sem eru okkur auðvitað til háborinnar skammar. Það er ótrúlega sorglegt að við skulum enn vera í þessari stöðu, þetta er ekkert nýtt. Þetta hefur verið rætt ár eftir ár síðan ég kom hingað á þing og einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni — við erum að ræða þessa skýrslu, við erum að taka ítarlega umræðu um hana — að þetta verði enn ein umræðan en verkin verði ekki látin tala. Horfum á árangur SÁÁ í þessum málum, bæði gagnvart börnum alkóhólista og gagnvart alkóhólistum, og það sem þeir eru að gera með þann takmarkaða fjárhag sem þeir hafa og hversu illa þeim gengur að fá aukið fjármagn. Ég spyr hvort það sé ekki eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnin ætti að einbeita sér að, þ.e. að virkja virkilega þá sem hafa þekkinguna, hafa sýnt fram á að þeir eru að ná árangri. Þar er verið að gera rétta hluti en einhvern veginn er kerfið voða tregt til að setja fjármagn í það. Það er alltaf eins og það vilji hafa fólk á bið. En þetta fólk má ekkert vera á bið. Það segir sig sjálft að það getur ekkert verið á bið. Því fyrr sem inngripið er því betra. Það hlýtur þar af leiðandi líka að vera kostnaðarminna en að vera með þær aðferðir sem notaðar eru núna, þ.e. að reyna einhvern veginn að halda þessu kerfi fjársveltu og lengja þar af leiðandi biðlistann.