Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

stafrænar smiðjur.

[11:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú erum við að ganga frá þinglokum og þá er stjórnarandstaðan náttúrlega að reyna að semja um þinglok og framgang þeirra mála sem meirihlutasamstarf ríkisstjórnarinnar snýst alla jafnan um að útiloka. Þá eru tekin fyrir ýmis mál og afdrif þeirra er nokkuð sem mig langar til að fjalla aðeins um í þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Hérna fyrir nokkrum árum síðan var samþykkt þingsályktun um uppbyggingu stafrænna smiðja þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra“ — sem var hæstv. ráðherra á þeim tíma — „að vinna áætlun um uppbyggingu og rekstur stafrænna smiðja […] Áætlunin verði skýr um framvindu verkefnis, verklok og um fjármögnun sem geti verið í samstarfi við aðila í nærsamfélaginu.“

Nú kemur skýrsla frá hæstv. forsætisráðherra um að þessari framkvæmd sé lokið með þessum orðum:

„Í mars 2021 voru undirritaðir samningar [til þriggja ára] við átta stafrænar smiðjur hringinn í kringum landið. Með samningunum uppfylltu ráðuneyti ANR og MRN þær væntingar sem felast í ályktun Alþingis nr. 19/148 og kveða á um að rekstrargrundvöllur stafrænu smiðjanna skuli styrktur, umgjörð þeirra fest í sessi“ — til þriggja ára — „aðgengi nemenda tryggt auk þess sem þær séu tengdar með markvissum hætti við atvinnulíf og nýsköpun.“

Þetta var alls ekki það sem þingsályktunin snerist um, að undirrita samning til þriggja ára við þær smiðjur sem voru þegar í gangi. Þá velti ég fyrir mér með þingsályktanir sem þingið samþykkir, og í þessu tilviki allir þingmenn sem voru í salnum sem höfðu meira að segja bætt við þingsályktunina, upprunalega þingsályktunin snerist um aðgengi framhaldsskólanema en þingið, nefndin bætti við grunnskólanemum og landsmönnum öllum: Hver ákveður að þingsályktun sé uppfyllt?