Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:37]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru örfáar vikur síðan Alþingi afgreiddi hér mótvægisaðgerðir til að bregðast við verðbólgu. Þá voru t.d. settir nokkrir milljarðar í að flýta hækkun greiðslna almannatrygginga, hækka húsaleigubætur og eingreiðslu barnabótaauka. Mig minnir að barnabótaaukinn og húsnæðisbæturnar hafi verið 2–3 milljarðar. Núna eru svo lagðar til aðhaldsaðgerðir með hærri neyslusköttum upp á u.þ.b. 3 milljarða. Þetta er svo fálmkennt og tilviljanakennt. Þessir neysluskattar og þessi aðgerð mun nákvæmlega bitna á hópunum sem átti að verja fyrir verðbólgunni í pakkanum sem við vorum að afgreiða hérna fyrir nokkrum vikum. Það er engin samfella í þessari efnahags- og ríkisfjármálapólitík.