Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[18:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef frá því að ég byrjaði að fylgjast með pólitík litið á Sjálfstæðisflokkinn sem flokk sem stendur alla jafna með eignarréttinum og eignarréttindum með mjög afgerandi hætti. Þess vegna kemur það mér svolítið á óvart þessi nálgun meiri hlutans. Já, já, við getum verið sammála alls konar markmiðum, en það er oftast þannig með þau frumvörp sem verða að lögum á endanum og ríkisstjórninni er falið að vinna að, að þá hefur líka náðst einhvers konar samstaða um aðferðafræðina, a.m.k. í grófum dráttum.

Hér eru komnar fram tillögur sem — ja, þetta eru mjög róttækar tillögur. Ég er ekki viss um að ég myndi treysta mér til að styðja svona tillögur í þingsal nema að undanfarinni mjög mikilli greiningu og ég held að lögfræðilegu rökin gegn þessari leið séu býsna skotheld.

— Nú man ég ekkert að hverju ég ætlaði að spyrja hérna í seinna andsvari. En ef ríkisstjórnin er með augun á verðtryggingunni eða að draga úr vægi hennar, hvers vegna ætti þá líka að fara að vinna sérstaklega með þetta frumvarp? Hvers vegna er það áherslumál? Hefði ekki verið nær fyrir nefndina að afgreiða þá sameiginlega þingsályktunartillögu á einhverjum almennari nótum um það hvernig eigi að bregðast við ástandinu? Eða er Sjálfstæðisflokkurinn svolítið bara á þessari sömu línu og Flokkur fólksins þegar kemur að verðtryggingunni og öðru?