Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:16]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Málið sem við greiðum nú atkvæði um er ekkert flókið. Það snýst um frelsi og að treysta fullorðnu, vitibornu fólki. Það snýst um að auka frelsi í áfengismálum í raun pínulítið. Það gengur út á þá heilbrigðu skynsemi að fullorðið fólk fari sér ekki að voða þótt það geti keypt fáeina bjóra og drykki uppi í sveit og að lýðheilsu þjóðarinnar sé ekki stefnt í voða þótt þessir hóflegu skammtar séu til afgreiðslu af starfsmanni sem er ekki á launaskrá íslenska ríkisins.

Það er síðan alveg einstaklega séríslensk íhaldssemi að það náist ekki samkomulag meðal íhaldsflokka landsins um svona sjálfsagða breytingu nema með því að lauma inn ótengdum rökum um byggðasjónarmið, ferðaþjónustu og gott ef ekki þjóðlega framleiðsluhætti. [Hlátur í þingsal.] Ég styð þetta mál og kalla eftir heildarendurskoðun á úr sér genginni og úreltri íslenskri áfengislöggjöf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)