Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál eindregið. Það var talað um að þetta væri ákveðin glufa og ég tek undir það. En nákvæmlega þessi breytingartillaga minnkar glufuna, lokar henni ekki, en hún minnkar hana. Hún er að þrengja þessa agnarsmáu glufu sem við erum þó að reyna að opna. Nefndin sendir það frá sér að það á að þrengja þessar heimildir, það á að veita ráðherra í ljósi lýðheilsusjónarmiða reglugerðarheimild til að þrengja kaup þeirra sem vilja kaupa beint af smásölunum, af þeim sem eru að framleiða. Ég er mótfallin því. Ég tel einfaldlega að þeir sem eru að kaupa þurfi ekkert að hafa neina reglugerðarheimild frá ráðherra. Þeir eiga bara að fá að kaupa það sem þeir vilja. Það er óþarfi að koma upp einhverju tollígildi á þessum sölustöðum. Við eigum einfaldlega að leyfa þeim sem njóta þess að fara til þessara framleiðenda og kaupa það sem þeir þurfa. Ráðherra þarf ekki að takmarka það frelsi og minnka þessa glufu sem við erum þó að greiða atkvæði um hér í dag. (Dómsmrh.: Hann notar alltaf glufu til að auka … ) [Hlátur í þingsal.]