Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi Covid-ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Mesta aðhaldið kom fram á árinu 2022 og þar munaði mestu um það hvað við drógum úr stuðningsaðgerðum. Það munar eitthvað um það á næsta ári en það er ekkert í líkingu við þann samdrátt sem varð milli áranna 2020 og 2021. Varðandi krónutölugjöldin þá, eins og ég lýsti hér áðan, lít ég þannig á að ef við látum þau ekki fylgja verðlagi þá séum við í reynd með ívilnandi aðgerðir, þ.e. eins konar skattalækkun sem er í eðli sínu þensluhvetjandi í samfélaginu og vinnur gegn vaxtahækkunum Seðlabankans. Við getum aðeins farið yfir það. Munurinn á því að hækka krónutölugjöld um 2,5%, sem við höfum verið að gera undanfarin ár, við höfum verið að fylgja verðbólgumarkmiði Seðlabankans, eða hækka samkvæmt verðlagi eins og við erum að gera núna er rétt u.þ.b. 0,1%. Það eru áhrifin á verðlag. Það er talan, áhrifamatið af þessari breytingu. Ég verð að segja að það á ekki að valda miklum straumhvörfum hér í landinu.

Hugmyndafræðilega væri ágætt að átta sig á því hvað hv. þingmaður teldi rétt að gera. Gleymum rafbílunum og gefum okkur að bílaframleiðendur væru að ná slíkum árangri í þróun bensín- og dísilvélarinnar að bílar smám saman eyddu bara nánast engu, kannski bara einum lítra á hundraðið. Og þetta er tekjustofninn sem ríkið ætlar að nota til að byggja upp vegakerfi og fara í stofnvegaframkvæmdir. Hvað myndi hv. þingmaður gera varðandi gjöld á bifreiðar sem eru smám saman bara hættar að taka bensín? Við erum að bregðast við því að bílarnir eru orðnir miklu sparneytnari og við erum að byrja núna að taka gjald af rafbílunum. Hvað myndi hv. þingmaður gera?