Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Stutta svarið er já. Ég ætla aðeins að fara nánar í það. Þegar kemur að flutningskerfinu þá hafa áætlanir Landsnets um uppbyggingu þess verið uppfærðar til samræmis við það sem fram kom í skýrslu starfshópsins sem hv. þingmaður vísaði til. Framkvæmdir við tengivirki í Breiðadal og hringtengingu Suðurfjarða eru samkvæmt áætlun. Endurnýjun tengivirkis í Mjólká er komið í undirbúning og búið að sækja um leyfi til Orkustofnunar. Orkusjóður hefur komið að allmörgum verkefnum á Vestfjörðum. Flest tengjast þau Bláma en einnig höfnum, fiskeldi og smærri bátum og verkefni um 100% rafknúinn þjónustubát. 135 millj. kr. koma í hlut Vestfjarða. Ég held að það megi segja að almenn ánægja sé í fjórðungnum með úthlutunina og ályktuðu Vestfjarðastofa og Blámi sérstaklega um það.

Orkusjóður studdi jarðhitanýtingu á Patreksfirði um 13,2 millj. kr. og um 33% af 40 millj. kr. verkefni þar til nýtingar á volgu vatni sem búið var að finna. Enginn styrkur var hins vegar veittur við jarðhitaleitina sem á aðallega að fara fram við Ísafjörð. En það liggur hins vegar alveg fyrir að það er verk að vinna þegar kemur að jarðhitaleit. Það liggur fyrir, ekki bara á Vestfjörðum, þótt það sé mjög mikilvægt. Hv. þingmaður vísaði til þess, sem er rétt, að við þurfum að líta sérstaklega til Vestfjarða og það hefur verið gert. Ég hef nú lítillega fundað með forsvarsmönnum sveitarfélaga á Vestfjörðum, ég mun gera það áfram, bæði út af orkuöryggismálum en líka þjóðgarðamálum. Ég hef í hyggju að setja í gang ákveðna vinnu í tengslum við það því að við erum algerlega meðvituð um mikilvægi Vestfjarða. Við munum ekki gleyma þeim fjórðungi, það mun ekki gerast, en við munum leggja okkur fram við að vinna með því fólki sem þar er til að ná sem bestri niðurstöðu.