Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem eru skiljanleg og eðlileg. Ég hefði kosið að sjá meiri metnað, en ég skil hæstv. ráðherra, varðandi sameiningar stofnana, varðandi það að leggja niður örstofnanir og gera þetta skilvirkara í þágu betri rekstrar ríkissjóðs og betri þjónustu.

Ég ætla að koma að nýsköpun. Á síðasta ári skrifuðu formaður Samtaka iðnaðarins og framkvæmdastjóri þeirra að ef rétt væri á málum haldið og réttar ákvarðanir yrðu teknar yrði hugverkaiðnaður ein stærsta útflutningsgrein landsins. Þetta væri stærsta efnahagsmálið. Stuttu síðar var birt skoðanakönnun sem sýndi að stjórnendur nýsköpunarfyrirtækja telja gjaldmiðilinn vera helstu hindrunina fyrir vexti hugverkaiðnaðarins. Það hlýtur því að vera þannig að ef við viljum raunverulegan vöxt þekkingariðnaðar og að hann verði hluti af því að verða okkar stærsti efnahagsdrifkraftur þá eru það auðvitað líka almannahagsmunir að hugsa um þennan þátt. Þegar verðbólga er mjög mikil veikir það samkeppnisstöðu þessa hluta hugverkaiðnaðarins að hér eru til að mynda vextir tíu sinnum hærri en í Danmörku. Það veikir viðkvæma samkeppnisstöðu þessa iðnaðar og ekki bætir úr að við erum líka með víðtækar heimildir til Seðlabanka Íslands um að beita gjaldeyrishöftum. Það er ekki opið og greiðfært fyrir þetta svið að fá erlenda fjárfestingu hingað inn í landið.

Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að beita sér í því að ryðja þessari helstu viðskiptahindrun úr vegi? Ég bið hæstv. ráðherra ekki að koma hingað upp og segja að við í Viðreisn tölum alltaf um íslensku krónuna. (Forseti hringir.) Það er forystufólk í hugverkaiðnaði sem segir að helsta hindrunin sé íslenska krónan, að við þurfum almennilegan gjaldmiðil til að vera samkeppnishæf við okkar helstu nágrannalönd.