Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður fór hér yfir varðandi kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi og þá alvarlegu stöðu sem í raun hefur verið í þeim málum en líka fagna því sem fram kom, að okkur var kleift með heimild fjárveitingavaldsins að efla þessa starfsemi umtalsvert á þessu ári og ekki bara til skamms tíma heldur til lengri tíma. Ég kom inn á það áðan að til að mynda telur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, sem glímir við langmesta fjöldann í þessum málum, að hún muni ná upp ásættanlegum málsmeðferðarhraða með ráðningu í þær stöður sem voru auglýstar seinni partinn í sumar.

Það er alveg rétt, sem fram kemur, að það er að fjölga, sem betur fer, segja margir, tilkynningum um þessi mál, heimilisofbeldismál og kynferðisafbrotamál, vegna þess að það er jú eitt af markmiðunum. Allar rannsóknir sýna okkur að það er allt of lágt hlutfall af þessum málum sem leitar fram og sér dagsins ljós, ef við getum orðað það þannig. Það er auðvitað eitt af verkefnum okkar að efla traust á kerfinu sem tekur utan um það fólk sem þarf að leita til okkar með svona alvarleg mál. Þetta eru áhrifin af því. Við settum í gang mikið átak síðastliðinn vetur og í sumar sem snýr að því að efla almenningsvitund, almenna umræðu, tókum upp samstarf við veitingastaði, leigubílstjóra og aðra um að við værum öll á vaktinni, að við horfum ekki í hina áttina, og það hefur tekist vel. Við þurfum að halda áfram á þessari braut. Ég tel að við séum á ágætri ferð í þessu. Lögin sem voru samþykkt í vor, um réttarstöðu brotaþola, gjörbreyta auðvitað stöðu þess fólks sem í þessu stendur.