Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tek hann á orðinu. Virkni, að starfa — ókei, það hljómar frábærlega. Nú skulum við segja að öryrki sem verður 18 ára fari að vinna. Hann sér fram á að fá laun og borgar í lífeyrissjóð. En svo getur hann ekki unnið meira. Hann fer inn á kerfið aftur og fær 25.000 kr. út úr lífeyrissjóðnum. Veit hæstv. ráðherra að það skilar honum bara 5.000 kr., 20.000 kr. eru teknar í skatta og skerðingar? Ef þessi sami einstaklingur hefur verið smá duglegur þannig að hann fái 125.000 kr. út úr lífeyrissjóðnum sínum, hverju skilar það honum? 25.000 kr., 100.000 kr. eru teknar í skatta og skerðingar. Þetta er kerfið sem við erum búin að byggja upp. Erum við að segja að á sama tíma og við ætlum að plata fólk til að vinna ætlum við að hafa þetta svona áfram? Það gengur bara á engan hátt upp. Við verðum, okkur ber skylda til þess, að bera það mikla virðingu fyrir þessu fólki að ef við segjum að við ætlum að leyfa því að vinna þá skili það sér á allan hátt í vasa þeirra. Það sama á við um eldri borgara. Lífeyrissjóðurinn skilar þeim ekki nema 25.000 kr. af hverjum 100.000 kr. Þetta eru laun þessa fólks og það eina sem þetta fólk hefur verið að biðja um er að fá að njóta þess. Lífeyriskerfið — þetta gamla fólk sem var í því fær 56% af fyrri launum, 200.000 kr. af 4.000 kr. Síðan fær það lífeyrissjóðinn og þá eru 75.000 kr. teknar af hverjum 100.000 kr. Ætlar hæstv. ráðherra að sjá til þess að breyta þessu?