Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:20]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er ráðherrann spurður hvort hann ætli að breyta þessu. Svar ráðherrans er: Já, ráðherrann vill breyta þessu og ætlar sér að gera það. Ég tek bara undir með hv. þingmanni að þær skerðingar sem eru í kerfinu eru of miklar. Þegar við tölum um virkni þá þurfum við kannski fyrst og fremst að hafa tvennt í huga. Við þurfum að hafa fleiri hlutastörf og fleiri sveigjanleg störf í boði vegna þess að margt fólk á örorku er ekki með 100% starfsgetu. Svo getum við farið að deila um hvað er 100% starfsgeta en ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér. Hitt atriðið er að kerfið refsi ekki fólki eða hindri fólk ekki í því að vinna. Þetta eru þær breytingar sem við erum með í farvatninu. Ég er samt ekki talsmaður þess að engar skerðingar séu í kerfinu. Ég tel að það sé mikilvægt að fjármunum ríkissjóðs, sem fara inn í þessa stóru málaflokka okkar, sé varið með þeim hætti að það nýtist mest þeim sem ekki geta unnið fyrir sér. Það er kannski mergurinn málsins að finna þetta rétta jafnvægi. Hvar eigum við nákvæmlega að vera þegar skerðingar byrja og hversu brattar eiga þær síðan að vera? Það er svolítið verkefnið núna. En kannski má segja að við viljum í því samhengi lækka sérstaklega skerðingar á fyrstu fjármununum sem fólk aflar vegna þess að í því felst enn meiri hvati, mætti segja.