Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:14]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ísland er sannarlega velferðarríki og á Íslandi er um 60% allra útgjalda ríkissjóðs varið til velferðarmála. Frá 2017 hafa heildarútgjöld til velferðarmála aukist um ríflega 123 milljarða að raunvirði og útgjöld til heilbrigðismála hafa aldrei verið hærri enda hefur raunaukning til heilbrigðismála á undanförnum fimm ár verið hátt í 40%. Samt er staðan víða sú í íslenska heilbrigðiskerfinu að fjölmargir sjúklingar bíða allt of lengi eftir nauðsynlegri og lífsbætandi heilbrigðisþjónustu. Þessi bið er fullkomlega óásættanleg í velferðarsamfélagi og langt umfram þau viðmið sem landlæknir hefur gefið út. Það er virkilega jákvætt að lesa um það í fjárlagafrumvarpinu að hér verði loksins innleitt þjónustutengt fjármögnunarkerfi og ég fagna því að þeir möguleikar verði skoðaðir að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar verði framleiðslutengd. Það er nefnilega ekki lögmál að hærri framlög leiði til betri þjónustu og við ættum að leita allra leiða til að fara vel með fjármuni í heilbrigðiskerfinu og nýta þá sem best.

Við erum reyndar með lög sem eiga að tryggja það, lög um sjúkratryggingar frá árinu 2008. Markmiðið með lögunum samkvæmt 1. gr. þeirra er m.a. að stuðla að hagkvæmri heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum. Þá er markmið laganna að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna. Í greinargerð með lögunum er það undirstrikað að heilbrigðisþjónusta skuli kostnaðargreind og tekin upp blönduð fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgi sjúklingum. Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, ekki um fjárþörf heldur hversu mikið sé í raun kostnaðargreint í dag, 14 árum eftir gildistöku laga um sjúkratryggingar og hvenær þetta fyrirkomulag verði að fullu innleitt lögum samkvæmt og til hvaða dagsetningar hæstv. ráðherra horfi varðandi árangur af því.