Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa útskýringu. Ég tek það samt fram að þetta er mjög villandi framsetning og ógagnsæ og þessu þarf að breyta. En mig langar til að ræða aðeins um fjárlögin og það að ég sé engin merki í frumvarpinu um að það eigi að koma til móts við álag undanfarinna ára á spítalanum og í heilbrigðiskerfinu og þá sérstaklega starfsmannaflóttann. Svo er það náttúrlega geðheilbrigðisþjónustan sem ráðherra talaði um í stefnuræðu sinni að honum væri mjög annt um. Ég get ekki séð að verið sé að að bæta einhverju við þar. Það er verið að gera 400 millj. kr. Covid-innspýtingu til geðheilbrigðismála varanlega. En það er ekki verið að bæta neitt í, sem er stórskrýtið í ljósi þess að við erum að díla við aukningu geðheilbrigðisvanda sem er að miklu leyti hægt að rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar sem viðbrögð við faraldrinum. Það er gífurleg óábyrgt að grípa ekki inn í strax með auknu fjármagni til að mæta aukinni þörf á þjónustu eins og t.d. bara sólarhringsopnun á bráðadeildinni. Það er svo mikil þörf á þessu. Þetta kostar líf. Það er svo brjálæðislega óábyrgt að hafa þennan þrönga opnunartíma. Þetta er bráðadeild fyrir fólk sem á við geðheilbrigðisvanda að stríða sem sækir sér aðstoð. Þetta er bráðadeild og fólk kemur að lokuðum dyrum. Hvað þá að niðurgreiða sálfræðiþjónustu sem er lögbundin skylda ráðherra að gera. Við samþykktum lög þess efnis í þessum þingsal fyrir rétt rúmum tveimur árum síðan.

Þannig að mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er ekki dálítið lýjandi að vera ráðherra yfir svona stórum og mikilvægum málaflokki og fá svo ekki einu sinni fjármagn frá fjármálaráðherra til að sinna lögbundnum skyldum? Þetta er ofboðslega skrýtin staða. Eða er þetta kannski svona sem hæstv. heilbrigðisráðherra vill hafa þetta? Sá hann þetta svona fyrir sér?