Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er hjartanlega sammála henni um að við þurfum að efla hafrannsóknir og mér þótti svolítið leiðinlegt að sjá ekki í núverandi fjárlögum neinar áætlanir um það alla vega. Það getur vel verið að þær séu í þessum blessaða varasjóð sem allir eru að fela sig bak við. Það eru engar áætlanir um að efla hafrannsóknir og ég held að nú sé kjörið tækifæri fyrir fjárlaganefnd að skoða hvort ekki sé hægt að auka fjármagn til hafrannsókna og kannski finna leiðir til að ná í fjármagn sem dekkar það frá blessuðum sægreifunum.

Að sama skapi þá unnum við sem sitjum í atvinnuveganefnd mjög náið með ráðherra í vor að því að auka heimildir Fiskistofu til eftirlits með veiðum, vegna þess að gögnin sýndu okkur svart á hvítu að það er mikið um brottkast, þvert á það sem forverar hæstv. ráðherra í ráðherrastól höfðu sagt, enda höfðu þeir bara tekið orð útgerðarinnar gild um það. En þótt heimildirnar til eftirlits séu auknar, þá tók ég ekki eftir í fjárlögum að neitt fjármagn væri aukið og í rauninni er jafnvel dregið saman. Ég alla vega lít á það sem mikið áhyggjuefni og vona að hæstv. ráðherra vilji gera betur þar.