Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma í stað hæstv. utanríkisráðherra og það er kannski ágætt vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra getur kannski betur svarað spurningunni en hæstv. utanríkisráðherra gæti. Hér í stefnuræðu fyrir nokkrum dögum sagði hæstv. fjármálaráðherra að við ættum ekki að vera eftirbátar nágrannaríkja okkar í stuðningi við Úkraínu en þegar kemur að Úkraínu og stuðningi við hana þá höfum við verið að styðja bæði uppbyggingu og aðra hluti, t.d. tengda varnarmálum eins og flutning á hergögnum. Við höfum verið að styðja með mannúðaraðstoð eins og hæstv. ráðherra nefndi. Við höfum líka tekið á móti u.þ.b. 2.000 manns sem hafa verið að flýja stríðið. Mín spurning til hæstv. fjármálaráðherra er eftirfarandi: Til að vera ekki eftirbátar og til að geta tekist á við allan þennan stuðning sem við höfum veitt og munum vonandi áfram veita, hvaðan mun þetta sérstaka framlag til Úkraínu koma? Mun það koma úr núverandi heimildum viðkomandi ráðuneyta? Mun t.d. öll þróunar- og mannúðaraðstoðin koma úr því sem þegar hefur verið skilgreint sem þróunar- og mannúðaraðstoð? Eða reiknar hæstv. fjármálaráðherra með því að það þurfi að nýta eitthvað af varasjóð eða öðrum fjármunum til að fjármagna stuðning við Úkraínu?