Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:24]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er nefnilega sú að við erum ekki á neinum enda. Við erum í rauninni í miðju ferli vegna þess að hér ákvað þingið að fara í þessar samningaviðræður með ákveðið samningsmarkmið. Við vorum komin nokkuð langt inn í þessar viðræður þegar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokk ákvað að hætta þessu og sendi þetta fræga bréf til Brussel sem enginn virðist í rauninni átta sig á hvaða þýðingu hefur. Stóra samningsmarkmið okkar er auðvitað, á sama tíma og að njóta þess ávinnings sem felst í búsetufrelsi, ferðafrelsi, upptöku stöðugri gjaldmiðils, að verja okkar sérstöðu og mikilvægi náttúruauðlinda okkar. Það held ég að liggi í hlutarins eðli og við vorum komin býsna langt, held ég. En mér finnst í rauninni málið vera af þeirri stærðargráðu, af því að það var klippt á þetta ferli með mjög ólýðræðislegum hætti á sínum tíma, að við þingmenn skuldum þjóðinni það að leyfa henni að taka ákvörðun og okkar hlutverk, stjórnvalda, verði þá að kynna málið með þeim hætti að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji halda áfram eða ekki.

Við erum nefnilega ekki á neinum enda, hv. þingmaður, við erum á miðju snærinu. Ástæðan fyrir því er að m.a. flokkur hv. þingmanns stoppaði það með mjög ólýðræðislegum hætti.