Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í því skyni að reyna að dýpka umræðuna og taka hana á grundvelli málefna og inntaks þá myndi ég gjarnan vilja spyrja hv. þingmann hvernig hún sér þátttöku í öryggis- og varnarsamstarfi Evrópu nýtast okkur. Þá er ég að velta fyrir mér: Á hverju er samstarf Evrópuríkjanna á grundvelli varnarmála byggt? Hverjir eru þættir þess samstarfs? Hvernig munu þeir nýtast okkur í þessu samhengi?

Ég spyr vegna þess að sú umræða hefur verið uppi alveg frá 1999 að Evrópusambandið hefur verið að reyna að marka sér stefnu í þessum efnum. Upp úr aldamótum lá fyrir að hinir eiginlegu hefðbundnu varnarþættir væru með nokkrum hætti útvistaðir til NATO og þó að töluvert sé fundað á sviði öryggis- og varnarmála innan Evrópusambandsins eru hinir eiginlegu þættir sem að þessu snúa harla rýrir.

Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann, sem í fyrri hluta ræðu sinnar lagði mikið upp úr því að ástæða væri fyrir okkur að nota þá hörmulegu atburði sem eiga sér stað í Evrópu til að endurmeta stöðu okkar, um inntakið. Ef aðild að Evrópusambandinu á að færa okkur meira öryggi þá spyr ég, hvernig?