Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:19]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrr. Hann kveikti algerlega á mínum fattara og nú eru öll ljós kveikt og ég er heima. Staðreyndin er sú að þetta er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir hér, algerlega hárrétt. Hér er siglt undir fölsku flaggi og það er akkúrat verið að reyna að læða á okkur alls konar sköttum. Og á hverjum bitnar það, eins og vegtollarnir? Ég hugsaði mér: Æ, í guðs bænum ekki fara að tala um þetta vegna þess að þá æsist ég öll upp og þetta er allt of stuttur tími. En þetta er alveg satt. Við skulum tala um t.d. fyrir norðan þar sem ég er fædd og uppalin, á Ólafsfirði. Þar eru Strákagöng og svo Héðinsfjarðargöng og gömlu Múlagöngin og allt þetta. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. vegamálaráðherra Sigurður Ingi ætlar að koma þessu við, á að borga alls staðar þar sem keyrt er í gegn eða hvar verður sérstaklega látið borga í gegnum göng? Fólkið sem hefur ekki efni á því að taka bensín á bílinn til að komast út í búð hefur væntanlega hefur ekki ráð á því að borga fyrir vegtollana. Nú á að endurvekja líka, ef ég skil rétt, gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum, göngunum sem við eigum, göngunum sem þjóðin tók á sig að greiða alveg upp í topp. Nú á að skella því á okkur aftur.

Jú, hv. þingmaður, það er verið að læðast að okkur bakdyramegin og klína á okkur alls konar óbeinum sköttum. Bara þetta, þegar er verið að bæta við 5 milljörðum í gjöld á rafmagnsbíla í öllu þessu sem er svona rosalega vænt og grænt og verið að boða orkuskipti. Það skýtur svolítið skökku við. Eðli málsins samkvæmt veltir maður því fyrir sér hvað það eigi að þýða í stað þess að halda áfram að hvetja fólk áfram og lækka jafnvel enn þá frekar fyrir efnaminna fólk til þess að gefa þeim kost á því að taka þátt í þessum orkuskiptum og komast í rafmagnsbílinn. En nei, þá skal nú aldeilis skella 5 milljörðum aukalega á þau á næsta ári, takk fyrir, í nýju fjárlögunum. Þannig að þetta er rétt sem þú segir, það er alveg sama hvert er litið, það eru þeir sem minnst hafa. Eins og hv. þingmaður segir: Af hverju vildum við ekki gera þetta öðruvísi? Af hverju ekki þá að breyta og koma með stigvaxandi skatta t.d. eins og inn á fjármagnstekjurnar og annað slíkt þegar einn og sami einstaklingurinn er jafnvel að fá 60–70 milljónir á mánuði í fjármagnstekjur? (Forseti hringir.) Ef ég mætti ráða þá myndi ég láta hann borga helminginn á mánuði beint í ríkissjóð, sjáðu til.