Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

framhaldsfræðsla.

136. mál
[15:39]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Staðan á endurskoðun framhaldsfræðslunnar er í rauninni sú að við erum í þann veginn að kalla eftir tilnefningum í starfshóp sem á að sjá um stefnumótun í málaflokknum og á grundvelli hennar verður ráðist í fyrirhugaðar lagabreytingar sem snúa að framhaldsfræðslulögunum, þeim lögum sem hér er gert ráð fyrir að gera breytingar á. Við vorum þegar búin að halda einn samráðsfund núna í vor um þetta atriði stjórnarsáttmálans með aðilum sem koma að framhaldsfræðslunni og hyggjumst halda þjóðfund um þetta núna í haust. Hvers vegna var ekki beðið með þessa breytingu sem, eins og hv. þingmaður nefnir, er ekki stórvægileg þangað til að búið er að ljúka við þessa stefnumótun og endurskoðun? Það er einfaldlega vegna þess samkvæmt lögunum þarf að skipa í stjórn Fræðslusjóðs núna í febrúar á næsta ári og það þótti rétt að fara fram með þessa lagabreytingu til að ráðherra menntamála hefði áfram fulltrúa í stjórninni en það mun ekki verða nema af þessari lagabreytingu verði.