Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

12. mál
[16:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend við það að lán á breytilegum vöxtum séu verðtryggð útgáfa, léttverðtryggð útgáfa, út af opnu skilmálunum. Ef þeir væru þrengri eins og ég rakti varðandi t.d. breytingar á stýrivöxtum þá væri það allt annað mál. En eins og útfærslan er núna þá gæti lánastofnun einfaldlega bara tengt þetta við vísitölu neysluverðs eða byggingarvísitölu án þess í raun að segja það upphátt og þá væri það eiginlega verðtryggt lán án þess að nokkur vissi það. Hún getur meira að segja gert það tímabundið og síðan ekki tímabundið þannig að það myndi ekki líta nákvæmlega eins út en það væri samt þannig þegar allt kemur til alls. Möguleikinn er til staðar. Og af því að möguleikinn er til staðar þá legg ég þessa skilmála að jöfnu hvað það varðar. – Það var áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á, hvatinn til að halda niðri verðbólgu. Hann hefur verið fjarlægður á vissan hátt. Áður fyrr voru laun verðtryggð í smátíma en það var fljótlega afnumið af því að þá var svo erfitt að stunda hagstjórn, þá þurfti að sýna aðhald í ríkisfjármálum og ýmislegt svoleiðis og þá væri ekki hægt að haga útflutnings- og innflutningstekjum sjávarútvegsfyrirtækja á nægilega þægilegan hátt eða gengisbreytingum o.s.frv. án þess að það kæmi út í launum og þess háttar líka. Þá fór náttúrulega allt á hausinn. Það er búið að snúa þessu tæki upp í það, þessu letihagstjórnartæki, að það eru heimili landsins sem borga brúsann. Ef þetta ætti að vera til á annað borð ætti áhættan tvímælalaust að vera hjá öllum aðilum. (Forseti hringir.) En hún er það ekki og fyrst hún er greinilega bara sett á annan aðilann þá ætti enginn að bera þá hagstjórnarlegu ábyrgð nema ríkisstjórnin.