Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

Verðbólga, vextir og staða heimilanna.

[15:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara segja það í upphafi að mér litist alls ekki á það ef hæstv. fjármálaráðherra eða aðrir stjórnmálamenn færu að handstýra vöxtum í landinu eða hlutast til um vaxtaákvarðanir með beinum hætti. Ég held að það sé afspyrnuvond hugmynd og að ákvörðunum um vexti sé ágætlega fyrir komið hjá sjálfstæðri og faglegri peningastefnunefnd sem er bundin af skýrum markmiðum og ramma sem löggjafinn setur.

Við verðum hins vegar að krefjast þess af hæstv. fjármálaráðherra að hann beiti tækjum ríkisfjármálanna, bæði til að sporna gegn þenslu og til að styðja við þá hópa sem verða harðast úti. Þetta útilokar ekki hvort annað eins og Philip Lane, aðalhagfræðingur Evrópska seðlabankans, kemur inn á í viðtali í dag. Hann stingur upp á því að skattar verði hækkaðir á þá tekjuhæstu og eignamestu og ofurhagnað fyrirtækja og þannig verði skapað svigrúm í hagkerfunum í Evrópu til að styðja við tekjulægri heimili. Þetta er nákvæmlega það sem við í Samfylkingunni höfum trekk í trekk verið að kalla eftir undanfarna mánuði fyrir daufum eyrum ríkisstjórnarflokkanna.

Hvar eru aðgerðirnar, virðulegur forseti, fyrir þau heimili sem hér er rætt um, sem bera hitann og þungann af snörpum vaxtabreytingum, t.d. unga fólkið sem skreið gegnum greiðslumat í heimsfaraldri og glímir núna við alveg ævintýralega þunga greiðslubyrði af húsnæðislánum? Áður hefði vaxtabótakerfið gripið þetta fólk en Sjálfstæðisflokkurinn og hans fylgitungl í ríkisstjórn hafa brotið það kerfi niður nánast umræðulaust og í staðinn beint húsnæðisstuðningi m.a. til tekjuhæstu heimilanna í formi skattfríðinda. Þannig er ríkisfjármálapólitíkin hér og við verðum að snúa þessari þróun við. (Forseti hringir.) Það er ekki á verksviði Seðlabankans eða Ásgeirs Jónssonar eða peningastefnunefndar, það er á verksviði ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Þeirra er ábyrgðin. Þeirra er skömmin ef ekki verður gripið til afgerandi aðgerða.