Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

tímabinding veiðiheimilda til 20 ára o.fl.

6. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu Viðreisnar um tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára. Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu er hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og ég mæli fyrir tillögunni fyrir hennar hönd hér í kvöld.

Í þessum þingsal hefur fólk ekki verið einnar skoðunar um fiskveiðikerfið okkar. Það er þó sitthvað býsna mikilvægt sem sameinar okkur. Við viljum að sjávarútvegurinn sé arðbær atvinnugrein sem skili þjóðarbúinu og samfélögum um land allt tekjum. Við viljum standa vörð um auðlindina með því að nýta hana með sjálfbærum hætti og við viljum held ég öll að sátt ríki um þann lagaramma sem greinin starfar eftir. Ég vil að síðustu nefna að við berum sem þjóð sterkar taugar til þessarar atvinnugreinar vegna þess að hún er einfaldlega samofin sögu okkar og menningu.

Um aðra þætti er meira tekist á þó að ég telji nú að það geti verið meiri hluti hér á þinginu fyrir þeim, a.m.k. nokkrum, t.d. að gjaldið sem greitt er fyrir aðgang að auðlindinni sé í samræmi við arðsemina að aðganginum, að rétturinn til að nýta auðlindina sé tímabundinn en ekki varanlegur, að einstaklingar og fyrirtæki geti ekki slegið eign sinni á það sem réttur skal teljast og er sameign þjóðarinnar. Árin 2000, 2010 og 2017 störfuðu þverpólitískar nefndir við að finna umgjörð utan um fiskveiðistjórnarkerfið sem almenn og víðtæk sátt gæti ríkt um. Niðurstöður tveggja fyrri nefndanna voru á svipaðan veg en þriðja nefndin, árið 2017, lauk ekki störfum. Að sögn nefndarmanna var þó í henni mikill meiri hluti fyrir því sama og hinar tvær nefndirnar höfðu skilað frá sér, sem er að nýtingarréttur yfir auðlindum hafsins skyldi ekki verða varanlegur. Með þessari tillögu sem ég mæli fyrir hér leitumst við í þingflokki Viðreisnar enn eina ferðina við að ná fram þeim breytingum sem þverpólitískt samstarf og meiri hluti þjóðarinnar hefur kallað eftir og sem meiri hluti þingsins getur vonandi stutt.

Þá að inntaki tillögunnar.

Með þessari tillögu er hæstv. matvælaráðherra, sem fer með málefni sjávarútvegsins, falið að festa í lög árlegt uppboð á hluta aflaheimilda og tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára. Hvað þýðir það? Það má segja að tillagan sé í reynd þríþætt. Í fyrsta lagi snýst hún um það að úthlutun aflaheimilda verði breytt þannig að rétturinn til veiða á 5% heildarafla verði boðinn upp á hverju ári. Kvótahafar fengju því 95% þess kvóta sem þeir hafa fyrir, úthlutað á hverju ári endurgjaldslaust en hinn hlutinn boðinn til 20 ára í senn. Með þessu móti ræðst afgjald ríkisins af aðstæðum á markaði; þegar vel árar bjóða menn hærra og þegar aðstæður eru erfiðari bjóða þeir lægra og allir fylgja sömu reglum. Þessi leið sameinar ýmsa kosti sem nauðsynlegt er að uppfylla. Markaðurinn leysir úr því að greitt sé eðlilegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni, allir eru jafnir fyrir kerfinu og öllum er heimill aðgangur að uppboðinu, öllum þeim sem uppfylla á annað borð þau skilyrði að geta gert út á Íslandsmiðum, sem er auðvitað lykilbreyta.

Í öðru lagi felur hún í sér tengt þessu að lög um veiðigjöld verði felld burt. Með tilkomu uppboðsmarkaðar með aflahlutdeild hverfur þörfin fyrir sérstaka gjaldtöku á sjávarútveginn, gjaldtöku sem byggir í dag á mjög ógegnsæjum útreikningum og er háð því hvernig vindar stjórnmálanna blása hverju sinni. Það eru stjórnmálin sem ráða því eða meta það hvert verðmætið er en ekki markaðurinn. Með öðrum orðum þá yrði greinin laus undan því að stjórnvöld ákveði einn daginn að hækka veiðigjöld verulega og þjóðin yrði laus undan því að stjórnmálamenn ákveði einn dag að lækka þau. Afgjald sem miðast við bókhaldslegan hagnað fyrirtækja er í eðli sínu ógagnsæ leið.

Í þriðja lagi gerir þessi tillaga ráð fyrir því að ráðherra setji á fót sérstakan uppbyggingarsjóð, innviðasjóð, myndi ég vilja kalla hann, sem hluti af tekjum ríkissjóðs af uppboði kvótans rennur í. Þessi sjóður hefur það hlutverk að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins og það er stórt atriði og þýðingarmikið fyrir samfélagslega hagsmuni, þ.e. að þessi sjóður fái það hlutverk að efla byggðirnar þar sem verðmætin verða til. Þannig er hægt að ná því markmiði að byggðir landsins sem standa að baki verðmætasköpun sjávarútvegsins og íbúar þeirra fái sjálfir að njóta ágóðans af verðmætasköpuninni. Sveitarfélög og byggðir hefðu aðkomu að því að stýra því hvernig fjármunum er forgangsraðað í fjárfestingu í innviðum þeirra. Með þessu fengist aukið fjármagn til uppbyggingar, t.d. í vegakerfinu, í fjarskiptakerfum, og hægt væri að vinna markvisst að því markmiði að styrkja, stækka og efla atvinnusvæðin á landsbyggðinni. Þetta eru þau þrjú markmið sem felast í tillögunni: Það er í fyrsta lagi uppboðið, í öðru lagi afnám veiðigjaldanna og í þriðja lagi hvernig ráðstafa á tekjum ríkisins af þessu nýja fyrirkomulagi með því að fjárfesta í byggðum landsins.

Hvers vegna er þessi tillaga að okkar mati svona mikilvæg? Það er vegna þess að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Í lögum um stjórn fiskveiða er þetta orðað með eins skýrum hætti og hægt er. Þar segir einfaldlega að úthlutun veiðiheimilda myndi hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. Löggjafinn gæti í sjálfu sér ekki verið skýrari um það til hvers var ætlast. En veruleikinn í dag er annar, afnotin af veiðiheimildunum eru í raun ótímabundin og þróunin er orðin sú að örfáar fjölskyldur fara með hana og munu fara með hana sem sína eigin. Sameign þjóðarinnar verður að sameign nokkurra fjölskyldna. Ef gefa á orðinu þjóðareign raunverulega merkingu þá skiptir máli að nýtingin sé gerð með tímabundnum samningum og auðvitað að greitt sé eðlilegt gjald fyrir afnotin. Þannig myndi upphafsorð laga um stjórn fiskveiða loksins öðlast þá merkingu og þá niðurstöðu sem til var ætlast.

Ég vek athygli á því að tímabinding réttinda er gegnumgangandi í íslenskri lagasetningu um auðlindir sem stjórnvöld úthluta nýtingarrétti á, þessum auðlindum sem eru í þjóðareign. Við sjáum dæmin í orkulögum. Við sjáum dæmin í lögum um fiskeldi. Við sjáum dæmin í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Við sáum dæmi í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð. Þar var líka talað um tímabundna samninga. Þá þarf að spyrja og þá þarf að svara: Hvers vegna þarf að gilda sérstök regla, sérregla fyrir sjávarútveginn?

En aftur að inntaki tillögunnar. Það hefur auðvitað mikið að segja um ástæður þess að tillagan er hér lögð fram að það ríkir óvissa, eða það fylgir óvissa núverandi kerfi, pólitísk og lagaleg. Þessi óvissa er til þess fallin að draga úr virði aflahlutdeildar og framleiðni í greininni og á sama tíma er hún til þess fallin að stefna framtíðar eignarrétti þjóðarinnar yfir auðlindinni í hættu. Mér finnst það vera sjálfstæð breyta í þessu að þessi óvissa er stór hluti þess að sárið í samfélagi okkar grær ekki. Lagalega óvissan snýst, eins og við þekkjum flest, um eignarréttarlega stöðu veiðiheimildanna: Hvað þýðir það að mega nýta rétt með þeim hætti sem kerfið býður upp á í dag? Um þetta hafa verið skrifaðar lærðar greinar, ekki allar skemmtilegar en margar. Það virðist vera algeng túlkun að með kvótakerfinu hafi verið komið á rétti sem er einhvers konar blanda beinna eignarréttinda, afnotaréttinda og atvinnuréttinda sem njóti þá verndar laga. Þannig að á þeim grundvelli er ekki hægt að afnema kvótakerfið nema fullar bætur kæmu til þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem rækilega er tekið fram, eins og ég nefndi hér áðan, að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum.

Það er mikilvægt að lagaumgjörðin, bæði í orði og í praxís, sé skýr og þannig eyðum við pólitísku óvissunni líka. Fátt er mikilvægara en að gjaldtaka endurspegli verðmæti sjávarútvegsins án þess þó að draga verulega úr arðseminni. Þrátt fyrir óvissuna er arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja töluvert meiri en almennt gerist í atvinnulífinu og uppboð er til þess fallið að tryggja sem mest samræmi milli arðseminnar og ábata íslensku þjóðarinnar af henni. Almennir markaðir blómstra þar sem verðmyndun ræðst af lögmálunum um framboð og eftirspurn. Það sama gildir ekki þegar verðið er ákveðið af nefnd embættismanna eða með lagasetningu. Slíkar ráðstafanir takmarka verðmætasköpun og hygla yfirleitt fáum á kostnað heildarinnar. Stefið um sérhagsmuni á kostnað almannahagsmunanna.

Hvers vegna ætti aðgangur að fiskveiðiauðlindinni að vera verðlagður með þeim hætti? Hvers vegna ætti þjóðin ekki að njóta ágóða af auðlind sinni eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar? Og síðan getur fólk kannski spurt: Hvers vegna er verið að tala um tímabindingu til 20 ára? Mörgum finnst þetta vera of stutt, útgerðin sé jú dýr og fyrirtækin þurfi fyrirsjáanleika, öðrum finnst þetta of langt. Svarið er kannski það að fyrirkomulag til tveggja áratuga veitir langtum meiri fyrirvara á fyrirsjáanleika en núverandi kerfi gerir. Varðandi þau sjónarmið að hér sé um langan tíma að ræða þá mætti segja að útgerðin er vissulega kostnaðarsöm og fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika og stöðugleika í fjárfestingum sínum. Tímabinding til 20 ára veitir mikilvægan fyrirsjáanleika fyrir langtímafjárfestingu en tryggir um leið að nýtingarréttur og auðlindir þjóðarinnar séu ekki framseld varanlega.

Eftir að sambærileg tillaga var flutt í október 2020 var hún færð til frekari meðferðar hjá atvinnuveganefnd. Þar bárust umsagnir sem voru að mestu leyti mjög jákvæðar í garð tillögunnar, m.a. var fjallað um þá þróun sem orðið hefur í uppboðsfræðum á grundvelli rannsókna sem er til marks um aukið mikilvægi þessarar aðferðar við úthlutun takmarkaðra gæða. Að sama skapi er mikilvægt að uppboðin, komi til þeirra, séu rétt hönnuð og rétt uppbyggð til að hámarka arðsemi þeirra, til að komast hjá leikfléttum á borð við tilboðssamtök og tryggja að leikreglurnar séu jafnar og sanngjarnar fyrir stóra aðila sem smáa.

Frú forseti. Mig langar að vísa sérstaklega til umsagnar Bolla Héðinssonar hagfræðings sem sagði, með leyfi forseta: „Með útboðum myndu Íslendingar ryðja brautina í fiskveiðistjórnunarmálum líkt og þeir gerðu áður með innleiðingu kvótakerfisins.“ Staðreyndin er nefnilega sú að núna, rétt eins og þegar kvótakerfið var sett á, erum við í þeirri stöðu að geta orðið leiðandi á heimsvísu á sviði arðbæra og sjálfbærra veiða.

Frú forseti. Við viljum styðja við áframhaldandi arðsemi greinarinnar og uppbyggingu hennar og við viljum vernda greinina fyrir ofveiði. Þetta hefur tekist mjög vel með kvótakerfinu og í þetta þarf að halda. Við erum hins vegar að leita leiða til að bæta það sem ekki hefur tekist vel með kvótakerfinu; að skapa sátt og stöðugleika sem kallað hefur verið eftir í áratugi. Þetta er breyta sem ekki má virða að vettugi í umræðunni. Þetta er í mínum huga stór réttlætisspurning, ein stærsta réttlætisspurning íslenskra stjórnmála. Árum og áratugum saman hlustum við á ákall þjóðarinnar í þessa átt. Það er í hag útgerðarinnar sjálfrar að reglurnar séu þannig að það framkalli stolt meðal þjóðarinnar en ekki sár. Þannig hámörkum við arð þjóðarinnar af auðlindinni, þannig vinnu við heildstætt og í sátt að framförum sjávarútvegsins og sameign þjóðarinnar yfir fiskinum í sjónum.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að óska eftir að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar í atvinnuveganefnd og ég býst við og þykist vita að þar muni fara fram góð umfjöllun um þetta mál þar sem aðilar fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og ég bind vonir við að það verði gert. Ég segi að lokum að ég hlakka til að fá málið aftur til umræðu og afgreiðslu í þingsal eftir umfjöllun nefndarinnar.