Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[12:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góða framsögu um þetta mál sem er mjög mikilvægt. Það er einmitt mikilvægt að við færum lögin inn í þann rafræna heim sem við búum við í dag.

Þá langaði mig aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í 7. gr. en í henni er fjallað um að hægt sé að skila rafrænt. Það eru tvær spurningar sem ég er með til hæstv. ráðherra um það annars vegar hvort ekki væri lag að bæta því inn að hægt sé að skrifa undir ársreikninginn rafrænt líka. Í dag þarf að handskrifa á prentaðan pappír, skanna það inn og senda til Skattsins. Í mörgum öðrum hlutum getum við gert þetta rafrænt. Það er fyrri spurningin.

Seinni spurningin kemur inn á það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson ræddi um áðan, sem er aðgengi að gögnunum. Þó svo að mörg skjöl í dag séu á pdf-formi þá er það form ekki mjög þægilegt til þess virkilega að grafa ofan í. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver vinna sé í gangi að skoða það, jafnvel að búa til sérhæft gagnasnið fyrir ársreikninga þar sem væri hægt að keyra alls konar skoðun á gögnunum sjálfvirkt í stað þess að þurfa að lesa pdf-skjalið.