Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er verið að reifa aðrar leiðir að sama markmiði. Það er ljóst að sú leið sem hv. þingmaður vill fara myndi m.a. leggjast þyngra á lögregluna. Það þyrfti þá að vera lögreglurannsókn sem færi fram og við megum ekki gleyma því að það er dómari sem þyrfti að skera úr um þetta þegar málin yrðu gerð upp. Varðandi atvinnuréttindi og atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar þá teljum við ekki að verið sé að ganga í berhögg við það. Menn eru auðvitað sviptir ýmsum réttindum í íslensku samfélagi á grundvelli lögbrota og ég tel að ekki sé verið að ganga gegn atvinnuréttindum fólks.

Þarna er verið að reyna að nálgast ákveðið mein sem er í íslensku samfélagi. Eins og fram hefur komið hjá hv. þingmanni er Ísland ekki eina landið sem reynir að taka utan um þessi mál til að koma í veg fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Það er mikilvægt að við gerum það. Málið fer núna til nefndarinnar og ef þar koma fram ný sjónarmið sem við þurfum að taka tillit til þá treysti ég því að nefndin muni gera það við lokaafgreiðslu málsins.