Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög gott mál að taka á kennitöluflakki. Það má vissulega deila um leiðir að því, og þetta frumvarp er ágætisinnlegg í það, en það verður alltaf að hafa í huga að við erum að takmarka atvinnufrelsi fólks og rétt fólks til að taka þátt í atvinnulífinu. Það breytir því þó ekki að ef almannahagsmunir krefjast þess að takmarka rétt fólks til að stýra einkahlutafélagi þá á að sjálfsögðu að gera það. Spurningin er hvaða leið við förum að því.

Það að stjórna einkahlutafélagi með takmarkaðri ábyrgð eru ákveðin réttindi. Það eru gríðarlega mikilvæg réttindi í markaðshagkerfinu, hinu kapítalíska hagkerfi sem byggir einfaldlega á því að hlutafélagaformið, sem er stórmerkilegt form, takmarkar ábyrgð. Ef verið er að misnota það með skilasvikum eða kennitöluflakki þá er það refsiverð háttsemi. Ég tel að við vinnslu þessa frumvarps í allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem ég sit og er 1. varaformaður, sé einnig mikilvægt að skoða skilasvikaákvæðið í 250. gr. almennra hegningarlaga og víkka það enn frekar þannig að það nái betur utan um kennitöluflakk. Kennitöluflakk er ekkert annað en undanskot eigna frá kröfuhöfum. Það er refsiverð háttsemi sem stórskaðar allt; hagkerfið, viðskiptalífið, lánardrottna, hefur samfélagsleg áhrif, skerðir samkeppnisstöðu og svo mætti lengi telja.

Vissulega má fara þessa leið sem nú er farin, en það er líka mjög mikilvægt að skoða hegningarlagaákvæðið, refsingarnar við skilasvikum og kennitöluflakki. Að svo búnu tel ég ekki ástæðu til að reifa þetta mál frekar en hlakka til umræðunnar í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég efast ekki um að góðar umræður verði þar og við getum bætt frumvarpið eða gert tillögur til úrbóta ef þess er þörf.