Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

meðferð einkamála o.fl.

278. mál
[17:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla. Mikilvægustu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu varða heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar Íslands í auknum mæli sem og rýmri skilyrði fyrir því að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Aðrar breytingartillögur miða ýmist að því eða skýra eða einfalda gildandi lagaákvæði eða færa þau til betri vegar í ljósi fenginnar reynslu.

Á þeim rúmu fjórum árum sem liðin eru frá því að þriggja þrepa dómskerfi var komið á fót hér á landi og Landsréttur tók til starfa hafa dómsmálaráðuneytinu og réttarfarsnefnd borist ábendingar um ýmis atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að betur megi fara í hinu nýja regluverki um málsmeðferð fyrir þessum dómstólum. Einnig hafa borist ábendingar um önnur atriði sem ekki tengjast nýlegum breytingum á dómstólum og réttarfari, svo sem ábendingar um breytingar til að styðja betur við rafrænt réttarfar. Ekki er um að ræða atriði sem hafa hamlað málsmeðferð fyrir þessum dómstólum heldur frekar þætti í málsmeðferðinni sem þarfnast frekari útfærslu eða samræmingar milli dómstiga.

Af þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér er fyrst að nefna þrenns konar minniháttar breytingar sem lúta að meðferð kærðra og áfrýjaðra einkamála fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Lagt er til að þessum dómstólum verði framvegis látið eftir að ákveða með reglum þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fram í málum sem sæta kæru til dómstólanna í stað þess að sá fjöldi sé ákveðinn í lögum. Þá er einnig lagt til að þessum sömu dómstólum verði með nánar tilteknum hætti heimilað að lengja fresti varnaraðila í almennum kærðum einkamálum og stefnda í almennum áfrýjuðum einkamálum til að skila skriflegri greinargerð og málsgögnum um stórhátíðir og á sumarleyfistíma. Síðasta af þessum þremur minniháttar breytingum lýtur að heimild gagnáfrýjanda í áfrýjuðu einkamáli, bæði fyrir Landsrétti og Hæstarétti, til að fá gagnáfrýjunarstefnu gefna út að nýju. Lagt er til að sú heimild verði eftirleiðis bundin við það að áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá dómi. Með breytingunni er einkum stefnt að því að girða fyrir að unnt sé að tefja málsmeðferð máls án þess að jafnræði málsaðila sé fyrir borð borið.

Í öðru lagi er lögð til breyting á lögum um meðferð einkamála um rýmri heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í þess háttar dómsmálum. Samkvæmt gildandi lögum um meðferð einkamála sæta tiltekin atriði sem kveðið er á um í 1. mgr. 167. gr. laganna kæru til Hæstaréttar. Þá er heimilt samkvæmt 2. mgr. sama lagaákvæðis að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Lagt er til að ákvæðið verðið rýmkað þannig að unnt verði að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um réttarfarsatriði sem fjallað er um í lögum um meðferð einkamála. Við mat á því hvort Hæstiréttur samþykki að taka kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort það varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð viðkomandi máls. Þá geti Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur að formi eða efni.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að eftir sem áður mun Hæstiréttur búa yfir því úrræði sem er að finna í gildandi 3. mgr. 167. gr. laganna að geta synjað um að taka kæruefni til meðferðar á hvaða stigi máls sem er ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls. Þá er að sama skapi vert að hafa í huga að um er að tefla heimild til að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði til réttarins og slíkri ósk yrði því að sama skapi hafnað ef efnisleg skilyrði laganna til að veita slíkt leyfi þættu ekki vera fyrir hendi. Ætla verður að þessar heimildir Hæstaréttar, sem og fyrrgreind tillaga til lagabreytingar um ákvörðunarvald réttarins um eintakafjölda málsgagna, geti vegið á móti möguleikanum á því að annar málsaðila kunni að telja sig hafa hag af töfum máls og geti vegið á móti auknum kostnaði án þess að farið yrði á mis við það réttarfarslega hagræði að fá fordæmisgefandi niðurstöðu Hæstaréttar í þeim málum sem unnt yrði að æskja leyfis til að kæra þangað.

Í þriðja lagi er lögð til rýmkuð heimild til að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Í dag skal ekki veita slíkt leyfi nema þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu réttarins með skjótum hætti og niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá skal ekki veita leyfi ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar. Með frumvarpinu er lagt til að skilyrðið um þörf fyrir skjóta niðurstöðu Hæstaréttar verði fellt brott og heimildin þannig rýmkuð. Þá er einnig lagt til að það viðbótarskilyrði verði sett fyrir veitingu slíks leyfis að ekki sé enn deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.

Þessar voru helstu tillögurnar sem lagðar eru til á lögum um meðferð einkamála.

Að því er viðkemur breytingum á lögum um meðferð sakamála er þess fyrst að geta að lögð til sú breyting að kveðið verði á um úrræðið sáttamiðlun í lögunum auk þess sem það verði skilyrði fyrir niðurfellingu máls á grundvelli samkomulags að sáttamiðlun hjá lögreglu hafi áður farið fram. Í júní 2020 skilaði starfshópur, sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði, tillögum til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Ein af þeim aðgerðum sem starfshópurinn lagði til var að efla heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlun með það að markmiði að fjölga málum sem lýkur án ákæru og draga þannig bæði úr álagi og kostnaði við meðferð mála. Í kjölfarið var sett á fót sérstök nefnd um sáttamiðlun sem falið var að koma með tillögur að lagabreytingum og eftir atvikum breytingum á fyrirmælum ríkissaksóknara og öðrum reglum sem eiga við um sáttamiðlun í sakamálum. Byggist 14. gr. frumvarpsins á tillögum þessarar nefndar.

Að því er viðkemur breytingum á lögum um meðferð sakamála er í annan stað lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum að þegar svo háttar til að krafist er framlengingar á gæsluvarðhaldi, og sú krafa er tekin fyrir áður en gæsluvarðhaldið rennur út, þá falli gæsluvarðhald ekki niður á meðan dómari ræður því til lykta hvort fallist verður á kröfuna eður ei. Miklir hagsmunir kunna að búa því að baki að gæsluvarðhaldsfanga verði ekki sleppt úr haldi á meðan dómari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um framlengingu gæsluvarðhalds, jafnvel þótt einungis væri um fáeinar klukkustundir að ræða. Á það við hvort heldur sem gæsluvarðhald byggist á rannsóknarhagsmunum eða því að viðkomandi teljist hættulegur sér eða öðrum. Þótt vissulega kunni slík framlenging sem hér er lögð til að vera íþyngjandi fyrir gæsluvarðhaldsfanga er jafnframt mikilvægt að dómari hafi svigrúm til þess að taka ígrundaða ákvörðun um hvort fallast beri á framlengingu gæsluvarðhalds, og án þess að framangreindum hagsmunum sé stofnað í hættu.

Þá er í þriðja lagi lögð til sú breyting á lögum um meðferð sakamála að dómara verði heimilað að einfalda samningu rannsóknar- og gæsluvarðhaldsúrskurða samkvæmt IX.–XIV. kafla laganna. Þannig verði eftirleiðis nægjanlegt að taka lýsingu á atvikum máls og rökstuðning aðila orðrétt upp í úrskurð í stað þess að endursegja og umorða þann málatilbúnað. Slíku verklagi er meðal annars ætlað að styðja við þann ávinning sem hlotist getur, og hefur nú þegar gert að hluta, af aukinni rafvæðingu réttarvörslukerfisins. Sýnt þykir að sú tilhögun myndi spara vinnu og tíma og er því lagt til að heimila og stuðla að einfaldara verklagi í meðferð dómkrafna af þessu tagi sem þurfa skjóta afgreiðslu, oft og tíðum í miklu annríki þegar margar kröfur af því tagi berast dómstólum með stuttu millibili.

Þá eru með frumvarpinu lagðar til breytingar af tvennum toga á lögum um dómstóla. Annars vegar að því er viðkemur heimild til að setja héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara vegna forfalla skipaðra dómara og hins vegar rýmkuð hæfisskilyrði héraðsdómara.

Að því er setningu dómara varðar er þess að geta að samkvæmt gildandi lögum um dómstóla er heimilt að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en tólf mánaða, nema um sé að ræða leyfi við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Lagt er til að þessari reglu verði breytt þannig að heimilt verði að setja dómara við héraðsdómstól, óháð því hversu margir dómarar starfa þar, ef brýn nauðsyn krefur og dómstólasýslan mælir með því.

Þá skulu dómarar sem settir eru við Landsrétt og Hæstarétt, samkvæmt gildandi lögum um dómstóla, hvort heldur í einstök mál eða í tiltekið tímabil, koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í viðkomandi embætti. Umrætt skilyrði um fyrrverandi dómara kom inn sem nýmæli við setningu gildandi laga um dómstóla. Það hefur ekki gefið góða raun, þar sem óraunhæft hefur reynst að fá fyrrverandi dómara til að taka að sér setningu í öllum tilvikum. Því er lagt til að þessi regla verði færð í sama horf og fyrir setningu gildandi laga þannig að settir dómarar við Landsrétt og Hæstarétt skuli fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í það embætti sem um ræðir, að frátöldum 70 ára hámarksaldri. Vakin er athygli á því að áfram er gert ráð fyrir því að dómnefnd sem starfar samkvæmt III. kafla laga um dómstóla, en ekki hlutaðeigandi dómstóll, tilnefni aðila til setningar í embætti dómara um ákveðið tímabil, og ef enginn dómari umrædds dómstóls getur tekið þátt í meðferð máls af einhverjum ástæðum.

Hvað varðar rýmkuð hæfisskilyrði til skipunar héraðsdómara er til þess að líta að samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 29. gr. gildandi laga um dómstóla má skipa þann einn í embætti héraðsdómara sem hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu. Leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Með frumvarpinu er lagt til að skilyrðin verði rýmkuð og eftirleiðis verði einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi í þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins, en að öðru leyti vísast til greinargerðar frumvarpsins og athugasemda við einstök ákvæði þess. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.