Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

41. mál
[18:44]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir góða ræðu og gott mál og óska henni til hamingju með fyrsta frumvarpið. Málið er ekki nýtt af nálinni en núgildandi starfsmannalög eru bara örlítið yngri en sú sem hér stendur. Það eru nokkrir hlutir sem mig langaði aðeins að staldra við í þessu máli. Í fyrsta lagi hafa stjórnendur innan opinbera geirans kallað eftir þessari breytingu. Í stjórnendastefnu ríkisins eru gerðar ítarlegar kröfur til stjórnenda um leiðtogahæfni, samskiptahæfni og árangursmiðaða stjórnun. Stjórnendur þurfa þar af leiðandi að eiga fleiri verkfæri í verkfærakistu sinni til að bregðast við breyttum nútímalegum aðstæðum á vinnumarkaði. Starfsmannalögin gera stjórnendum hjá hinu opinbera erfitt fyrir, leikreglurnar eru of þungar í vöfum og kerfið er svifaseint. Hér þarf líka að nefna nauðsyn sveigjanleikans í starfsmannahaldi hins opinbera, ekki síst vegna kröfu um aukna skilvirkni hins opinbera og t.d. auknar kröfur um stafræna þjónustu sem oft skilur eftir sig minni þörf fyrir starfsfólk. Full þörf er á að auka jafnræði milli starfsöryggis opinberra starfsmanna og þeirra skyldna stjórnenda hjá hinu opinbera að stýra og fylgja eftir stjórnendastefnu ríkisins. Auk þess er nauðsynlegt, eins og komið hefur fram hérna í umræðunni, að auka jafnræði meðal starfsmanna á opinbera markaðinum og hins almenna.

Það er þörf á því að nútímavæða lög um starfsmenn ríkisins. Við þurfum að fylgja eftir þeirri þróun sem er að gerast í öðrum löndum þar sem umhverfi opinbera geirans er að nálgast það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, ekki síst til að efla samkeppnishæfni landsins. Ég veit að það eru margir sem spyrja sig hvers vegna opinberir starfsmenn eigi að njóta meira starfsöryggis á meðan kjör þeirra hafa batnað til muna og þeir leiða í raun launaþróun hér á landi. Er hið opinbera ekki bara verða eftirbátur í því sem kallað er „gig economy“? Afsakið, virðulegur forseti, ég kann ekki íslenskt orð yfir það. (Gripið fram í.) Harkhagkerfi. Ný kynslóð, mín kynslóð, fer bara fram með gjörbreyttu viðhorfi til vinnumarkaðarins frá því sem ríkti fyrir um 70 árum, en grunnur starfsmannalaganna er einmitt sirka það gamall. Það er enginn ágreiningur um að enn verði að miða við málefnaleg sjónarmið ef til uppsagnar á að koma. Hér er enginn að tala um að opinberi geirinn eigi einhverja möguleika á því að fara í uppsagnir sem byggja á einhverjum geðþóttaákvörðunum. Nei, við verðum auðvitað enn þá að miða við þær leikreglur sem við höfum stuðst við eins og kröfu um málefnaleg sjónarmið. Stjórnsýslulögin breytast ekki við þetta frumvarp. Bann við hvers kyns mismunun mun auðvitað alltaf vera til staðar í stjórnarskránni. Já, og til staðar eru og verða enn þá kanalar fyrir aðila til að skjóta slíkum ákvörðunum stjórnvalds til réttra aðila séu þeir ósáttir við málsmeðferðina. Þá má auðvitað nefna að skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera hafa fengið á sig einhvers konar óorð fyrir þennan ósveigjanleika í starfsmannalögunum, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, kom aðeins inn á í ræðu sinni á undan, en stjórnendur grípa stundum því miður til þess ráðs að ráðast í skipulagsbreytingar til að réttlæta uppsögn. Þetta grefur undan trausti og getur gert það að verkum að skynsamlegar og eðlilegar skipulagsbreytingar sem eru hluti af framþróun vinnustaðar verða tortryggilegar. Það hljóta allir sjá að við verðum að leysa þennan hnút. Mál þetta er skref í rétta átt.

Svo er auðvitað mikilvægt að hafa í huga hér að því miður leynast svartir sauðir víða. Ég nefni hér raunveruleg dæmi þar sem þolendur eineltis, kynferðislegs áreitis eða annarrar óásættanlegrar framkomu samstarfsmanns, þurfa að þola það að starfa áfram með geranda sínum eða á endanum hrekjast í burtu úr starfi sjálfir. Jafnvel eigum við til dæmi, fjölmörg dæmi því miður, um kulnun í starfi, langtímaveikindi og ýmislegt annað heilsufarstengt hjá þeim einstaklingum sem þurfa að þola slíkt ólíðandi ástand á vinnustað sínum. Ein áminning dugar hér ekki til. Þrátt fyrir að stjórnandi myndi vilja víkja starfsmanni sem brotlegur er strax frá störfum þá heimila lögin það ekki. Umhverfi þar sem starfsmaður er nánast sósnertanlegur er varla farsælt. Ég hlakka til að fylgjast með þessu máli og lesa umsagnir.