Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

málefni flóttafólks.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er algerlega hárrétt sem hún bendir á að það eru fordæmalausar aðstæður í heiminum hvað varðar fjölda fólks á flótta og það er ekki nema eðlilegt að við Íslendingar finnum fyrir þeim aðstæðum. Ég vil nota tækifærið hér af því að hv. þingmaður beinir þessari fyrirspurn til mín til að minna á að langflest sem hingað hafa leitað á þessu ári koma frá Úkraínu og það var okkar ákvörðun og ég hef ekki skilið annað en að við séum öll sammála um þá ákvörðun, að við myndum opna dyr okkar fyrir fólki sem leitar skjóls vegna þeirra skelfilegu stríðsátaka sem þar eru. Þau sem hafa hingað leitað frá Úkraínu eru hátt í 1.900 af þeim ríflega 3.000, 3.133, sem hingað hafa leitað á árinu og 653 koma frá Venesúela. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á líka þá er ástæðan fyrir þeim fjölda sem hingað hefur komið frá Venesúela úrskurður kærunefndar útlendingamála. Þannig að ég vil undirstrika það hér að í raun og veru eru það tvær stjórnvaldsákvarðanir sem hafa verið teknar, annars vegar af hálfu stjórnvalda að bjóða öll velkominn frá Úkraínu og hins vegar ákvörðun kærunefndar, sem eru ástæðan fyrir þessu. Því get ég ekki tekið undir að hér sé stjórnlaust ástand. Þetta eru ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þegar við lítum á önnur þau sem hingað hafa komið er sá fjöldi í sjálfu sér ekkert umfram það sem ætla mætti að væri eðlilegt.

Ég hef hins vegar sagt að auðvitað skapar þetta álag. Þetta skapar álag á húsnæðismál hjá sveitarfélögum, þetta skapa álag úti í skólunum og m.a. vegna þessara aðstæðna hef ég stofnað ráðherranefnd um málefni útlendinga og innflytjenda þar sem ætlunin er að fara heildstætt yfir þessi mál. Þar sitjum við dómsmálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, háskólaráðherra og forsætisráðherra, af því að auðvitað þurfum við að tryggja það að við getum tekist á við stöðuna með sómasamlegum hætti, (Forseti hringir.) staða sem er, eins og ég segi, fyrst og síðast til komin vegna ákvörðunar ríkisstjórnar annars vegar og ákvörðunar kærunefndar útlendingamála hins vegar.