Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

ástandið í lyfjamálum.

[10:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er krefjandi áskorun að reyna að fá vit í fjárlagafrumvarp upp á 90 milljarða halla á sama tíma og mörg af mikilvægustu verkefnum á ábyrgð ríkisins eru vanfjármögnuð. Það er krefjandi að reyna að skilja forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Í samtali við þingmann Viðreisnar um nákvæmlega þetta fyrir nokkrum vikum sagðist fjármálaráðherra vilja setja umræðuna um báknið og umfang ríkissjóðs í eðlilegt samhengi og tók dæmi af útgjöldum til heilbrigðisráðherra og sagði m.a. að við værum að fjárfesta meira í betri lyfjum og sagði, með leyfi forseta: „Við erum að nota styrk ríkisins til að sinna þeim verkefnum sem við höfum tekið að okkur að sinna vel.“ Ljóst er að fjármálaráðherra var hæstánægður með stöðu mála og þetta hljómar alveg stórvel. En svo kikkar raunveruleikinn inn þar sem staðreyndirnar fá orðið og spurningar vakna um raunverulega forgangsröðun stjórnvalda.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um forgangsröðunina í ljósi þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar mun lyfjanefnd Landspítala ekki hafa svigrúm til að taka hin nýju betri lyf í notkun á næsta ári. Fjárveitingarnar nægja varla til að viðhalda þeim lyfjameðferðum sem þegar eru hafnar og hvað þá að tryggja aðgengi landsmanna að nýjum lyfjum í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Það stefnir í að það vanti 2,2 milljarða kr. til að hægt sé að sinna fyrirliggjandi verkefnum. Þetta ástand varðar ekki eingöngu lyfjagjöf á Landspítala heldur hefur lyfjadeild spítalans yfirumsjón með leyfisskyldum lyfjum á heilbrigðisstofnunum um land allt. Ég spyr: Er þetta það sem hæstv. heilbrigðisráðherra myndi kalla að nota styrk ríkisins, að nota hallarekstur ríkisins m.a. til að sinna fyrirliggjandi verkefnum vel? Er ráðherra sáttur við þessa stöðu og ef ekki, hvað er hann að gera í málinu?