Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir að hefja þessa umræðu um fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þingmaður spyr hér hvort fjármögnunarumhverfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sé eins og hvort það sé óháð rekstrarformi þeirra. Stutta svarið er já og nei. Já, við erum að stefna að því með fjármögnunarumhverfinu en þegar kemur að fjármögnun og fjármunum, samsetningu í efnahag og hvernig það hefur áhrif á rekstur þá verður það alltaf aðeins ólíkt og tengist m.a. þeim álitamálum eða þeim greinarmun sem hv. þingmaður fór hér yfir, m.a. varðandi skatta og skyldur, lög um opinbera starfsmenn o.s.frv. Hvaða áhrif myndi það hafa ef ein eða fleiri heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu myndu loka, er einnig spurt, og hvort ráðherra hafi í hyggju að breyta fjármögnunarlíkaninu. Það yrði auðvitað óhugsandi ef einhver lokaði. Á okkur hvílir hins vegar sú skylda að tryggja grunnþjónustu. Það yrði mjög bagalegt ef það myndi henda og við látum það ekki gerast. Varðandi það hvort ráðherra hafi í hyggju að breyta fjármögnunarlíkani heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu þá er ráðherra búinn að því nú þegar, vegna þess að það er einmitt þetta líkan sem á að tryggja sem mest jafnræði í þessu fjármögnunarumhverfi. Það er lykillinn og þess vegna er þessi umræða svo mikilvæg. Það er rétt að sem fyrsti viðkomustaður, í takti við okkar heilbrigðisstefnu, eru allar heilsugæslustöðvar mjög mikilvægar og jafn mikilvægar í veitingu heilbrigðisþjónustu. Það myndi alltaf hafa slæm áhrif á heilbrigðiskerfið ef heilsugæslustöð, opinber eða einkarekin, myndi einhverra hluta vegna þurfa að loka. Aftur á móti hvílir á okkur þessi skylda, eins og ég sagði, um þjónustuna.

Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins eru 19 heilsugæslustöðvar og af þeim heyra 15 undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en það eru fjórar einkareknar sem hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands. Allar þessar heilsugæslustöðvar fá fjárveitingu til rekstrar stöðvanna samkvæmt reikniverki sama fjármögnunarlíkans og þá óháð rekstrarformi.

Fjármögnunarlíkanið hefur í grunninn reynst vel. Það var hannað á John Hopkins háskólasjúkrahúsinu í Bandaríkjunum, fyrir lén í Svíþjóð, hvaðan við sækjum fyrirmyndina. Þetta líkan hefur verið aðlagað íslenskum aðstæðum og, eins og kom réttilega fram, var innleitt hér árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu og árið 2021 á allri landsbyggðinni. Aðferðafræðin byggir á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar, fylgi sjúklingum á milli stöðva og sé þannig óháð rekstrarforminu. Þessi samræmda fjármögnun gerir okkur kleift að gera skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitendanna og þannig er hægt að ná betri yfirsýn yfir þjónustuna, auðvelda kostnaðar- og þarfagreiningu, bæta gæði og fjármögnun á markvissan hátt. Slíkt kerfi á því að gæta bæði jafnræðis milli rekstraraðila og á milli notenda, það er líka mikilvægt í þessu. Fjármögnunarlíkanið þarf að vera í stöðugri þróun til þess að geta komið til móts við síbreytilega þjónustuþörf og þróun í þjónustuveitingu. Því var settur saman starfshópur með öllum hagaðilum og fulltrúum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og einkareknu stöðvunum til að vinna að umbótatillögum og líkanið hefur nú verið uppfært út frá öllum samþykktum tillögum hópsins. Einnig hefur verið ákveðið að halda áfram með sambærilegan starfshóp sem hefur það hlutverk að bregðast við þróun og þörf á því að breyta líkaninu og forma tillögur til umbóta eftir því sem við á. Það er skoðun þess sem hér stendur að þetta þarf að vera lifandi hópur sem vinnur bara samhliða þeim samningi sem er í gildi hverju sinni til að ræða það ef upp koma álitamál og hvernig líkanið þarf að þróast. Líkanið skiptist að mestu leyti í fast fjármagn, sem er 90% af heildarfjármagni, og þar eru þrjár vísitölur sem stýra fjármagninu og endurspegla fyrst og fremst sjúklingahópinn sem við erum að þjóna. Það er kostnaðarvísitala, þarfavísitala og félagsþarfavísitala og svo fá stöðvarnar greitt fyrir geðheilbrigðisþjónustu, sjúkraþjálfun, skólahjúkrun og túlkaþjónustu.

Ég verð að fá að halda áfram, virðulegur forseti, í seinna umferð en hlakka til að hlusta á það sem kemur fram hér í umræðunni.