Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég stóð hér í þessum ræðustól um miðjan maí sl. og fjallaði um það frumvarp sem nú er lagt fram að nýju. Það var ekki einfalt fyrir mig sem stjórnarþingmann að taka til máls í því máli. Það skal viðurkennt, frú forseti, að ég hafði í bjartsýni minni gert mér vonir um að þegar frumvarpið liti dagsins ljós að nýju yrði a.m.k. að einhverju leyti tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem ég hafði sett fram og í raun efnislegra athugasemda sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerði grein fyrir skriflega til ráðherra.

En hér erum við aftur og ég segi aftur það sem ég sagði hér í vor: Þetta frumvarp er lagt fram af góðum ásetningi en það breytir ekki því að athugasemdir mínar eru alvarlegar. Það kemur ekki ráðherra eða neinum öðrum á óvart að ég hafi þær athugasemdir sem ég verð að ítreka hér og bæta kannski örlitlu við frá því sem ég gat um í vor. Þær kvaðir sem er verið að leggja á leigusala með sektarheimildum til handa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og með hvaða hætti hið aukna eftirlitshlutverk þeirrar stofnunar er samkvæmt frumvarpinu er í besta falli mjög umhugsunarvert. Ég vona að þingmenn velti því fyrir sér hvort það sé réttlætanlegt. Ég held og fullyrði að það sé mjög varhugavert.

Því er haldið fram í greinargerð, og ég hef einnig heyrt aðra þingmenn hér halda því fram, að mikilvægt sé að hið opinbera komi með skýrum hætti að húsaleigumálum, jafnvel þótt um einkaréttarlega samninga sé að ræða. En auðvitað er lykilatriðið í þessu máli að við erum hér að ræða um einkaréttarlega samninga. Það er verið að leggja til að ríkisvaldið eða ríkisstofnun skuli fylgjast með og skrá niður alla einkaréttarlega samninga á leigumarkaði, að viðlögðum refsingum, sektum sem viðkomandi stjórnvald fær heimild til að beita verði þetta frumvarp að veruleika. Í mínum huga er enginn eðlismunur á því að leggja á lagalega skyldu um að skrá leigusamninga hjá hinu opinbera og að krefjast þess með lögum, að viðlagðri refsingu, að allir skriflegir ráðningarsamningar milli launamanns og atvinnurekanda skuli skráðir í opinberan gagnagrunn til að hægt sé að hafa einhvers konar yfirsýn yfir vinnumarkaðinn sem stjórnvöld telja að sé nauðsynlegt.

Megintilgangur frumvarpsins er að ná betri yfirsýn — og skilningi þar með — á leigumarkaðinn og ég get tekið undir að okkur vantar alveg örugglega gleggri mynd af leigumarkaðinum. En menn verða að fara varlega í að ákveða hvaða verkfæri og hvaða lagalegu þvinganir menn ætla að leggja hér á einstaklinga til að ná því markmiði. Ég bið félaga mína hér í þingsal að velta því aðeins fyrir sér hvort við séum ekki hægt og bítandi með þessu að feta okkur inn í samfélag þar sem við teljum eðlilegt og nauðsynlegt að ríkið, opinber aðili, fylgist með og skrásetji alla samninga sem frjálsir einstaklingar gera með sér, hverju nafni sem þeir nefnast. Í þessu tilfelli eru það leigusamningar, næst verða það ráðningarsamningar og svo getum við haldið áfram og áfram, allt rökstutt með því að nauðsynlegt sé að fá betri upplýsingar og átta sig betur á stöðu á viðkomandi mörkuðum o.s.frv.

Ég segi: Það getur aldrei verið réttlætanlegt að ríkið teygi sig inn í og hafi afskipti af og krefjist þess að einstaklingar geri grein fyrir og skrái allar sínar gjörðir eða allt sem fram fer milli tveggja frjálsra einstaklinga eða einkaaðila.

Og aftur: Tilgangur frumvarpsins og markmiðið, sem hæstv. ráðherra er að reyna að ná, er göfugt og það er enginn illvilji að baki þessu frumvarpi. Mér dettur það ekki í hug. Hann er ekki þannig gerður, hæstv. ráðherra. Ég er að vara við því út á hvaða braut við erum að feta og að fordæmið sem verið er að gefa verði notað sem réttlæting þegar næsta skrefið verður stigið í því að ákveða að við skulum skrásetja einhverja aðra tegund af einkaréttarlegum samningum í opinbera gagnagrunna, að viðlögðum refsingum, sektarheimildum o.s.frv.

Ég ætla að fullyrða að þetta frumvarp er ekki til þess fallið að bæta réttarstöðu leigjenda. Ég hygg aftur á móti að það þveröfuga gerist. Ég óttast að þegar svona kvaðir, að viðlögðum refsingum, eru lagðar á þá muni það hafa neikvæð áhrif á markaðinn, að það sé líklegt. Og ég færi rök fyrir því að það muni draga úr framboði á leiguhúsnæði vegna þess að fólk bara hreinlega telur það ekki þess virði að standa í þessu veseni, að þurfa að skrásetja allt sem það gerir, og tekur íbúðina sem það er að leigja út af markaðnum. Eða það sem líklegt er að gerist einnig, að hluti markaðarins færist undir borðið, að til verði svartamarkaður á leigumarkaði, hann muni eflast og þar með muni réttarstaða leigjenda versna til muna.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég ítreka það sem ég sagði hér í vor, ég mun ekki geta staðið að því að samþykkja þetta frumvarp. Það á líka við um marga af mínum félögum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég bind þó vonir við að hægt verði að gera breytingar í meðförum þingsins þannig að frumvarpið nái tilgangi sínum án þess að gengið sé gegn samningsfrelsi einstaklinga sem er verið að afnema nema þeir skrái sína samninga í opinberan gagnagrunn. Ég trúi því ekki að við ætlum að fara þá leið. Ég trúi því ekki, frú forseti, að við ætlum að feta okkur inn á þessar brautir vegna þess að þá erum við komin inn á mjög hættulegar brautir sem ég hygg að standist hreinlega ekki ákvæði stjórnarskrár þegar kemur að atvinnufrelsi.