Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:31]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér þykir miður í hvaða farveg málefni fólks á flótta eru komin og að verið sé að nota aukinn fjölda flóttafólks frá Úkraínu sem ástæðu fyrir því að skerða möguleika annarra til að leita skjóls á Íslandi. Vissulega hefur sá hópur sem leitar hingað til lands stækkað en u.þ.b. tveir þriðju þeirra koma frá Úkraínu. Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar tóku ákvörðun um að bjóða öllum þeim sem hingað koma frá Úkraínu landvistarleyfi. En hvernig var það undirbúið? Ég fæ ekki séð að það hafi verið gert á nokkurn hátt, að öðru leyti en því að dyrnar voru opnaðar upp á gátt. Það voru t.d. ekki gerðir neinir samningar við sveitarfélögin til að bregðast við þessu og nú hafa lítil börn komið til landsins og fá ekki þjónustu við hæfi, börn sem hafa upplifað aðstæður sem við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund.

Getur það verið glæpur, virðulegur forseti, að leita eftir betra lífi? Hvað myndum við sjálf gera til að koma okkur úr örbirgð og neyð og búa börnunum okkar betra líf? Margir býsnast yfir auknum fjölda fólks á flótta frá Venesúela en hver er raunverulega staðan í Venesúela ? Þar voru u.þ.b. 20.000 manns drepnir af lögreglu og öryggissveitum á þriggja ára tímabili frá árinu 2016 til ársins 2019 fyrir það eitt að veita stjórnvöldum andstöðu. Stærstur hluti þjóðarinnar lifir þar undir fátæktarmörkum og hefur ekki aðgang að heilbrigðiskerfi. Er þetta fólkið sem við ætlum að loka á? Er þetta fólkið sem við ætlum að senda til baka eða til Rúanda?

Virðulegur forseti. Ég spyr um mannúðina. Fyrir hvað viljum við standa sem þjóð?