Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fatlað fólk er einn berskjaldaðasti hópurinn í hamförum og neyðarástandi. Þetta höfum við séð ljóslifandi á síðustu árum; í Covid-faraldrinum þar sem fatlað fólk var skilið eftir í innrás Rússa í Úkraínu og nýverið þegar miklar náttúruhamfarir urðu í Pakistan. Fatlað fólk deyr í hamförum umfram aðra hópa. Það er staðreynd. Fatlað fólk er skilið eftir. Það getur ekki orðið sér úti um mat og aðrar nauðsynjar, það getur ekki flúið eða leitað skjóls og nýtur síður aðstoðar hjálparsamtaka.

Við stefnum inn í algerlega fordæmalausa tíma vegna loftslagsbreytinga. Um leið og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn þeim þurfum við að undirbúa samfélagið til að takast á við miklar breytingar. Við þurfum að ræða félagslegu innviðina í þessu samhengi. Ég upplifði það á eigin skinni að standa ein, án aðstoðar, frammi fyrir úrræða- og skilningsleysi kerfanna í miðjum heimsfaraldri. Ég óska engum þess að standa í þeim sporum frammi fyrir náttúruhamförum. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna deilir þessum áhyggjum og hefur fjallað um það, einmitt vegna þess að rannsóknir og reynsla sýnir að fatlað fólk stendur höllum fæti í slíkum aðstæðum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt, fjallar einnig um þetta.

Við sem samfélag þurfum að horfast í augu við þennan veruleika og ákveða hvernig við ætlum að tryggja öryggi fatlaðs fólks í hamfaraástandi, sama hvort það er eldgos, óveður, snjóflóð eða faraldrar smitsjúkdóma. Hvernig ætlum við að tryggja að upplýsingar um viðbragðsáætlanir séu aðgengilegar, að fólki berist aðstoð í neyðarástandi og aðgengi að fjöldahjálparstöðvum? Ég hyggst leggja fram fyrirspurn um stöðu fatlaðs fólks í hamfara- og neyðarástandi og hvet ríkisstjórnina til þess að hefja þegar í stað vinnu til að tryggja að enginn verði skilinn eftir.