Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um er að ræða endurflutt mál sem lagt var fyrir Alþingi á 152. löggjafarþingi. Í umræðum á Alþingi um það mál kom fram almennur stuðningur við málið en ekki náðist að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok vorið 2022. Minni háttar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram í fyrra skiptið og eru þær raktar í samráðskafla frumvarpsins.  

Frumvarpið felur í sér tillögur að rýmkun á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum. Í frumvarpinu er lagt til að möguleikar lífeyrissjóða til áhættudreifingar fjárfestinga verði auknir og geta þeirra til þess að standa undir lífeyrisskuldbindingum framtíðarinnar þannig styrkt. Þá er í frumvarpinu lagt til að í lögunum verði kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til að upplýsa nýja sjóðfélaga um helstu réttindi sem ávinnast við greiðslu iðgjalda. Loks er í því fjallað um heimildir lífeyrissjóða til rafrænnar birtingar á greiðsluyfirlitum iðgjalda sjóðfélaga og upplýsingum um væntanleg lífeyrisréttindi en gildandi lagaákvæði bindur rafræna birtingu við samþykki sjóðfélaga.

Breytingar er varða gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða eru eftirfarandi:

1. Að lágmark eigna lífeyrissjóðs í innlendum gjaldmiðli lækki úr 50% í 35% í nokkrum skrefum og að ráðherra verði skylt að leggja mat á þörfina fyrir aðra áfangaskiptingu eigi síðar en árið 2027.

2. Að lífeyrissjóður þurfi ekki að bregðast við ef gjaldmiðlaáhætta hans fer umfram leyfileg mörk sökum breytinga á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkana á erlendum eignamörkuðum en á meðan það ástand varir verði honum óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína með kaupum á eignum í erlendum gjaldmiðlum.

3. Að lífeyrissjóðum verði gert að eiga eignir í innlendum gjaldmiðli sem jafngilda væntum lífeyrisgreiðslum sameignarhluta næstu þriggja ára.

4. Þá eru þrjár breytingar lagðar til varðandi afleiður, sem eru eftirfarandi:

a. Að skilmálar afleiðusamninga sem ekki eru skráðir á skipulegan markað skuli vera í samræmi við rammasamning Alþjóðasamtaka um skiptasamninga og afleiður.

b. Að ekki verði lengur gerðar kröfur til uppgjörs afleiðusamninga sem ekki eru skráðir á skipulegan markað samdægurs á raunvirði.

c. Að gert verði skýrara að lífeyrissjóðum sé heimilt að gera afleiðusamninga sem geti myndað skuld á efnahagsreikningi þeirra.  

Virðulegi forseti. Með tilliti til nýlegrar hækkunar iðgjaldaprósentu, úr 12% í 15,5%, og þess hvernig líklegt er talið að aldurssamsetning þjóðarinnar þróist mun íslenska lífeyrissjóðakerfið halda áfram að vaxa þar til á sjötta áratug þessarar aldar. Stærra lífeyrissjóðakerfi eykur þrýsting sjóðanna á innlendan fjármálamarkað og ruðningsáhrif í þjóðarbúinu. Þá hafa lífeyrissjóðir sagt að gildandi hámark gjaldmiðlaáhættu setji sumum sjóðum það miklar hömlur í fjárfestingum að örðugt sé að setja og fylgja hagkvæmustu fjárfestingarstefnu fyrir sjóðfélaga. Svo koma megi til móts við þessi sjónarmið er í frumvarpinu lagt til að lögbundið lágmark innlendra eigna lífeyrissjóða verði lækkað úr 50% í 35%, fyrst um 1,5 prósentustig frá 1. janúar 2024 til 1. janúar 2027, en eftir það lækki lágmarkið um eitt prósentustig 1. janúar ár hvert þar til það nær 35% 1. janúar 2036. Í ljósi þess að strax við gildistöku frumvarpsins eiga breytingar á gengi og verðhækkanir á erlendum mörkuðum ekki að hafa þau áhrif að lífeyrissjóðum beri að grípa til ráðstafana til að koma gjaldeyrisáhættunni í það horf að hún sé innan lögbundinna viðmiða, var ekki talið ráðlegt að stíga stærri skref í rýmkuninni að svo stöddu. Þetta tvennt spilar sem sagt saman. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að ráðherra verði skylt að leggja mat á þörf fyrir breytingar á hlutfallinu og aðlögunartímabilinu eigi síðar en á árinu 2027.  

Virðulegi forseti. Tillögur frumvarpsins um breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða eru byggðar á greiningu og skýrslu sem Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, vann að beiðni ráðuneytisins. Skýrslan hefur verið birt opinberlega í samráðsgátt stjórnvalda. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um meginniðurstöður skýrslunnar og einnig eru raktar helstu greiningar annarra sérfræðinga á fjárfestingarþörf lífeyrissjóða á undanförnum árum.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.